-7.1 C
Selfoss
Home Fréttir Skýrsla um félagsleg þolmörk íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðamönnum

Skýrsla um félagsleg þolmörk íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðamönnum

0
Skýrsla um félagsleg þolmörk íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðamönnum

Komin er út ný skýrsla um félagsleg þolmörk íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustu en hún er lokaafurð áhersluverkefnis Sóknaráætlunar Suðurlands. Rannsóknin fór af stað haustið 2017 og var unnin af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Hornafirði.

Helsta markmið áhersluverkefnisins var að afla upplýsinga um viðhorf íbúa á Suðurlandi gagnvart ferðaþjónustu og greina þannig þolmörk íbúa gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustu út frá hinum ýmsu þáttum í innviðum samfélagsins. Út frá slíkum upplýsingum mætti gera stöðumat og skapa forsendur til ákvarðanatöku um nauðsynleg viðbrögð, ef þörf þætti.

Rannsóknin var unnin í þremur tengdum þrepum. Fyrsti hluti hennar fólst í því að taka viðtöl við íbúa á helstu þéttbýlisstöðum á Suðurlandi. Síðan var lögð fyrir spurningakönnun fyrir úrtak allra íbúa innan landshlutans, en með viðbótarúrtökum á þremur áætluðum álagssvæðum: Bláskógabyggð, Mýrdalshreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði. Þriðji og síðasta hluti rannsóknarinnar fólst svo í því að kalla saman lausnamiðaða rýnihópa íbúa á álagssvæðunum þremur. Leiðarljós rannsóknarvinnunar var setningin: „Nauðsynlegt er að vöxtur í ferðaþjónustu eigi sér stað í sátt við íbúa og samfélagið“ í lýsingu áhersluverkefnisins.

Áhrifa vaxandi ferðaþjónustu gætir víða
Viðtölin leiddu í ljós að áhrifa vaxandi ferðaþjónustu gætir mjög víða í lífi Sunnlendinga og koma fram á fjölbreyttan hátt. Þátttakendur nefndu þannig mikinn fjölda ólíkra áhrifa, sem ýmist þóttu jákvæð eða neikvæð. Niðurstöður spurningakönnunarinnar benda til þess að jákvæð áhrif vaxandi ferðaþjónustu tengist einkum eflingu atvinnulífs, sköpun nýrra starfa, fjölgun íbúa og bættum lífskjörum íbúa. Einnig kom fram að lífsgæði íbúa hafi almennt séð batnað og bjartsýni á framtíð byggðarlaga aukist. Flestir þátttakenda voru ánægðir með ferðaþjónustuna í sinni heimabyggð og töldu samskipti sín við erlenda ferðamenn almennt vera á jákvæðum nótum. Neikvæð áhrif af völdum aukins fjölda ferðamanna birtust einkum í meiri og hættulegri umferð á þjóðvegum og í auknu álagi á ýmsa grunnþjónustu, einkum þá heilbriðisþjónustu og löggæslu. Þá voru flestir þátttakendur á þeirri skoðun að fjöldi ferðamanna væri of mikill í þeirra heimabyggðum á sumrin. Greining gagna eftir lýðfræðilegum breytum leiddi í ljós töluverðan mun á viðhorfum karla og kvenna í þátttakendahópnum sem túlka má á þann veg að konur hafi ekki notið sama ávinnings og karlar af eflingu ferðaþjónustunnar og/eða verði meira varar við aukið álag eða breytingar af hennar völdum. Munur á viðhorfum þátttakenda eftir búsetu kom fram í um 65% tilvika. Ýmsir þættir einkenndu álagssvæðin þrjú í samanburði við önnur svæði innan landshlutans; samskipti við ferðamenn voru tíðari, hærra hlutfall íbúa starfandi í ferðaþjónustu og hærra hlutfall heimila sem hafði tekjur af ferðaþjónustu a.m.k. hluta ársins.

Þróuninni lýst sem tilurð nýs veruleika í íslensku samfélagi
Í rýnihópaviðtölunum voru helstu niðurstöður spurningakönnunarinnar bornar undir þátttakendur og þeir beðnir að gefa álit sitt á þeim. Niðurstöðurnar komu þátttakendunum ekki á óvart, ef frá er talinn munurinn á viðhorfum karla og kvenna. Svör um stærstu úrlausnarefni voru nokkuð áþekk á milli álagssvæða. Allir rýnihóparnir nefndu vegakerfið og umferðarþungann, svo og breytta íbúasamsetningu og samfélagsgerð vegna fjölgunar íbúa af erlendum uppruna. Þá var mikið álag á heilbrigðisþjónustu og lögreglu einnig nefnt bæði af þátttakendum í Bláskógabyggð og í Mýrdalshreppi, svo og húsnæðisvandi. Umræðan í rýnihópunum varpaði skýrara ljósi á helstu úrlausnarefni og sýndi enn fremur að sami vandi gæti haft ólíkar birtingarmyndir sem sköpuðust í gegnum samspil við staðbundnar aðstæður í heimabyggðum. Umræðan í rýnihópunum gaf enn fremur talsvert aðra mynd af breytingum á félagslífi heimamanna en unnt var að lesa úr niðurstöðum spurningakönnunarinnar. Áhrifin þóttu umtalsverð og voru að mestu rakin til breyttrar íbúasamsetningar, þar sem íbúar af erlendum uppruna – sem færi stöðugt fjölgandi – tækju m.a. síður þátt í félagsstarfi en þeir íbúar sem fyrir voru. Þátttakendur í rýnihópunum voru þó meðvitaðir um að þetta væri ekki „einkamál“ íbúa af erlendum uppruna, heldur þyrfti samfélagið í heild sinni að takast á við þetta viðfangsefni.

Mikill og hraður vöxtur ferðaþjónustunnar á undanförnum sjö til átta árum hefur breytt íslensku samfélagi á margvíslegan og, í sumum tilvikum, djúpstæðan hátt. Svör þátttakenda rannsóknarinnar benda til þess að þessar breytingar hafi, á heildina litið, verið til góðs fyrir íbúa á Suðurlandi, þó að ýmis brýn málefni kalli á úrlausn. Þótt útlit sé nú fyrir hægari fjölgun í komum ferðamanna til landsins en verið hefur, þá bendir fátt til annars en að þessar samfélagslegu breytingar verði viðvarandi og festist enn frekar í sessi á komandi árum. Þessari þróun í heild mætti lýsa sem tilurð „nýs veruleika“ í íslensku samfélagi – nýrrar og áður óþekktrar grunnstöðu þar sem þjónustugrein hefur leyst frumframleiðslu af hólmi sem mikilvægustu stoð atvinnulífsins víða á landsbyggðinni. Nýr veruleiki kallar á nýja þekkingu, nýja hugsun og ný vinnubrögð – stjórnvöld, íbúar og fyrirtæki þurfa að átta sig á þessum breytingum og hvert þær eru að leiða samfélögin á Suðurlandi. Þannig skapast forsendur til að stýra þeim sterku þróunarkröftum sem vöxtur ferðaþjónustunnar hefur leyst úr læðingi. Skýrsluna má finna á vef SASS, www.sass.is.