10.6 C
Selfoss
Home Fréttir Ég vil gjarnan gera vel við mig og mína í mat

Ég vil gjarnan gera vel við mig og mína í mat

0
Ég vil gjarnan gera vel við mig og mína í mat
Þórir Tryggvason.

Matgæðingur vikunnar er Þórir Tryggvason. Ég vil byrja á því að þakka Brynjari Svanssyni vini mínum fyrir traustið. Veit þó ekki alveg hvað hann hefur fyrir sér í hæfileikum mínum á þessu sviði, þar sem við Brynjar borðum oftast saman þar sem aðrir eru í eldamennskunni. En við skulum reyna að afgreiða þetta verkefni.

Ég vil gjarnan gera vel við mig og mína í mat, en jafnframt að það sé einfalt og þægilegt með lágmarks undirbúningi.

Í forrétt ætlum við að bjóða uppá beikonvafða laukhringi. Best er að nota svokallaðan hótellauk en annars þá stærstu sem finnast í búðinni. Skerum laukinn niður í sneiðar og notum stærstu hringina, gott að nota 2 hringi saman. Beikonsneiðunum er velt upp úr púðursykri eða sukrin gold, sem er nátturulega hollara og ef fólk vill þetta pínu spicy, má bæta örlitlum cayanne-pipar við sykurinn. Síðan eru laukhringirnir vafðir með beikoninu og þetta er einfaldlega bakað við 200°C í ca. 30 mín. eða þar til þetta er orðið stökkt og krispí. Vekur alltaf lukku og er hæfilegt að vera með 3-4 hringi á mann í forrétt. Gott að vera með t.d. Fabrikkusósuna með, eða sýrðan rjóma og mayonnes, hrært saman.

Þegar kemur að kjöti, þá finnst mér frekar erfitt að fá góðar steikur í búðinni, svo folaldakjöt beint frá bónda hefur haft vinninginn hjá mér nokkuð lengi. Passa þarf samt sérstaklega að elda það ekki of mikið og er passlegt að taka það af grillinu þegar maður heldur að það eigi smástund eftir.

Tek kjötið úr fyrsti með góðum fyrirvara og leyfi því að þiðna í kæli, best er að gleyma því í 1-2 vikur í kæli, þá verður það enn meyrara. Notum góðan vöðva í heilu, t.d. innralæri eða fille, snyrtum ef þarf, áætla ca. 2-300 gr. á mann. Svartur pipar grófmalaður yfir og undir og svo Caj P’s bbq grillolía yfir allt, best er að leyfa þessu að marinerast í a.m.k. 2–4 klukkutíma fyrir eldun. Sett á snarpheitt grillið og látið eldast jafnt á báðum hliðum þar til kjarnhiti er ca 50°C, helst ekki meira. Á heitum sumardögum gæti þurft að lækka hitann örlítið í restina. Þetta er uppskrift sem erfitt er að klúðra.

Meðlætið er síðan ferskt og gott salat, bætt í það ristuðum furuhnetum og granateplum, jafnvel smátt skorinni melónu eða fetaosti, fyrir þá sem það vilja. Geri svo gjarnan piparostasósu sem er bæði einföld og fljótleg. Ríf niður piparost með rifjárni, heill ostur á móti einum pela af rjóma, fá upp suðu og látið malla á lágum hita. Er mjög góð líka daginn eftir ef svo ólíklega vill til að það verði afgangur af kjötinu. Kartöflur af grillinu, sveppir, laukur, paprika og það sem er til í ísskápnum fær að fljóta með á grillið.
Í eftirrétt er gott að skera niður jarðarber og bláber, þeyttur rjómi og sykurlausu Fiber-sírópi dassað yfir. Auðvelt að skreyta með fleiri góðum ávöxtum og/eða ís.

Að lokum þá ætla ég að skora á félaga minn og vin Stefán Pétursson. Ég veit að hann er mjög duglegur í eldamennskunni, þó mest allt séu það réttir sem forfeður okkar hefðu verið hrifnir af.