12.3 C
Selfoss
Home Fréttir Lax eða silungur í forrétt

Lax eða silungur í forrétt

0
Lax eða silungur í forrétt
Brynjar Svansson.

Matgæðingur vikunnar er Brynjar Svansson. Ég þakka Hjalta fyrir þennan bjarnargreiða en ég verð að reyna að standa mig svo ég bregðist ekki hans trausti. Ætlaði eitt sinn að verða kokkur en lífið æxlaðist svo  að ég fór í rafmagnið. Þar sem nú er að hefjast stangveiðitímabilið þá er upplagt að koma með uppskrift af forrétti sem má vera lax eða silungur en bæði  smakkast  afbragðs vel í þessum rétti.

Forréttur
Lax eða silungur er beinhreinsaður mjög vel og skorin í hæfileg stykki.
Hulið í grófu salti í um 25 mín og þá er saltið skolað af, stykkin sett í skál og alveg hulin í Egils appelsínuþykkni í um 24 tíma.
Stykkin tekin og sett í reyksuðupott með viðarspæni í botninum í um 10–15 min fer svolítið eftir útihitastiginu.
Borið fram kælt.
Mér finnst best að borða þennan rétt sósulausan því þá nýtur reykjarbragðið sín mjög vel með svala appelsínubragðinu.

Aðalrétturinn
Lambafillet best að úrbeina hrygginn sjálfur.
Vöðvinn skorinn í hæfileg stykki og fitulagið ofan á í hæfilega teninga.
Kryddað með salti og helst Season all eða öðru góðu kryddi, látið standa við stofuhita til að ná upp innhitanum fyrir matreiðslu. 5–6 tímar.
Grillið hitað í 180–200 gráður og kjötið sett á grillið með fitulagið niður í um 10 mín síðan er kjötinu snúið við og látið vera í 10–15 mín fer eftir hvað innlitur á að vera á kjötinu heildar steikingar tími upp á 25 mín þá er það nokkuð vel steikt.
Með þessu er borið fram bökuð kartafla, ferskt salat og fetaostur. Fyrir þá sem vilja sósu þá er villisveppasósa það albesta með þessum rétti.
Best er að drekka vatn með þessu en til hátíðabrigða er gott að vera með Brunello Di Montalcino.

Eftirréttur
Þar sem ég er lítill eftirréttamaður þá mæli ég frekar með að sest sé niður og opnuð flaska af t.d. Masi Nectar Costasera rauðvíni eða öðru svipuðu.

Að lokum vil ég skora á vin minn og vinnufélaga hjá Rarik Þóri Tryggvason að gerast næsti matgæðingur vikunnar en hann er víst mjög fær á pottana.