-2.8 C
Selfoss

Árborg tekur skref í átt að rafrænni stjórnsýslu

Vinsælast

Skipulags- og byggingardeild Árborgar tók í dag stórt skref í stafrænni stjórnsýslu þegar opnuð var rafræn gátt sveitarfélagsins fyrir umsóknir og samskipti um byggingaráform og byggingarleyfi. Óhætt er að kalla þetta byltingu í stafrænniframþróun sveitarfélagsins og eru starfsmönnum skipulags- og byggingardeildar og tölvudeildar færðar þakkir fyrir elju og áræði við að hleypa þessu verkefni af stokkunum.

Um er að ræða hugbúnaðarlausnina OneLandRobot sem er ný sjálfvirk útgáfa frá OneSystems. Hugbúnaðarlausnin vinnur alfarið á rafrænum samskiptum milli sveitarfélagsins og umsækjanda byggingaráforma og byggingarleyfa, hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara, sem munu í framhaldinu upplifa einfaldari, greiðari og fyrirhafnarlausari samskipti við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa. Jafnframt mun þessi lausn leiða til mikillar einföldunar og vinnusparnaðar fyrir starfsfólk sveitarfélagsins, tryggja rétta málsmeðferð og draga úr villuhættu og mistökum.

Á næstu mánuðum mega íbúar sveitarfélagsins gera sér vonir um njóta aukinnar rafrænnar þjónustu frá Sveitarfélaginu Árborg enda markmið sveitarfélagsins að bæta rafræna stjórnsýslu þannig að íbúar og fyrirtæki geti með einfaldari og þægilegri hætti sinnt erindum sínum og nýtt sér þjónustu sveitarfélagsins. Verið er að vinna að því að koma öllum umsóknum til sveitarfélagsins í rafrænt form sem hægt verður að nýta í gegnum gáttina Mín Árborg, en þar má nú þegar nálgast ýmsar umsóknir vegna skólamála og einnig áðurnefnda gátt vegna byggingarmála (OneLandRobot). Fyrir áramót verður einnig opnuð ný heimasíða Árborgar sem verður farsímavænni og nútímalegri en verið hefur.

Nýjar fréttir