11.7 C
Selfoss
Home Fréttir Sjö sumarkiljur fyrir bókafólkið

Sjö sumarkiljur fyrir bókafólkið

0
Sjö sumarkiljur fyrir bókafólkið

Bókaútgáfan Sæmundur hefur sent frá sér sjö sumarkiljur sem henta bókafólki á öllum aldri.

Fyrsta skal þar telja ljóðabók Steinunnar A. Stefansdóttur, Fugl/blupl en það er önnur ljóðabók höfundar sem sendi árið 2016 frá sér bókina USS. Áður hafa ljóð hennar birst í tímaritum og vakið athygli.

Svo skal dansa er söguleg skáldsaga eftir Bjarna Harðarsonar en hann segir hér frá falleruðum og fátækum formæðrum. Bókin sem ber undirtitilinn Hetjusaga kom fyrst út árið 2009 og hlaut þá einróma lof.

Little gay Reykjavík er ensk útgáfa bókarinnar Hin hliðin eftir Guðjón Ragnar Jónasson sem kom út á íslensku fyrir síðustu jól og segir sögu hinsegin fólks í Reykjavík á síðustu áratugum 20. aldar.

Konan í dalnum og dæturnar sjö er einstök saga kvenhetjunnar Moniku á Merkigili í Austurdal. Þessi bók Guðmundar G. Hagalín kom fyrst út 1954 og með henni varð Monika Helgadóttir táknmynd íslensku húsfreyjunnar, fórnfýsi hennar og atorku. Nú í fyrsta sinn í kilju.

Eitraða barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson er sakamálasaga sem sækir sögusvið aftur til Eyrarbakka aldamótanna 1900. Bókin kom út í harðspjalda bók um síðustu jól og hlaut afar góða dóma.

Galdra-Manga eftir finnska verðlaunahöfundinn Tapio Koivukari er söguleg skáldsaga um galdraofsóknir á Ströndum á 17. öld. Hér er sögð saga konu sem flýr sína heimasveit eftir að faðir hennar hefur verið brenndur á báli.

Svikarinn eftir Lilju Magnúsdóttur er saga um ástir og svik þar sem margt óvænt kemur í ljós. Svikarinn er fyrsta bók Lilju og hefur hlotið góðar viðtökur hjá lesendum, en hún kom út í harðspjalda bók fyrir síðustu jól.