1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Ómar Ingi semur við SC Magdeburg

Ómar Ingi semur við SC Magdeburg

0
Ómar Ingi semur við SC Magdeburg
Ómar Ingi ásamt forsvarsmönnum SC Magdeburgar. Mynd: Magdeburg.

Selfyssingurinn Ómar Ingi Magnússon hefur gert samning við þýska handknattleiksliðið SC Magdeburg. Ómar Ingi mun ganga til liðs við þýska félagið næsta sumar þ.e. 2020. Samningurinn nær til ársins 2024. Magdeburg varð í þriðja sæti í þýsku deildinni í vor á eftir Flensburg og Kiel.

Ómar Ingi lék með danska liðinu Aalborg í vetur og varð danskur meistari með liðinu í vor. Þar áður lék hann með Aarhus. Ómar spilaði frábærlega með Aalborg í vetur, var með flestar stoðsendingar, og var m.a. valinn í lið ársins. Þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára hefur hann átt fast sæti í íslenska landsliðinu.

Bennet Wiegert, þjálfari Magdeborgar, segist á heimasíðu félagsins vera mjög stoltur af því að hafa samið við Ómar Inga, hann sé hluti af langtíma uppbyggingu Magdeburgar. „Hann er ein efnilegasta hægri skytta Evrópu í dag og er þrátt fyrir ungur aldur kominn með mikla reynslu sem hann hefur fengið með liði Álaborgar. Hann hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu tvö síðustu tímabili. Við vonumst til að hann muni hjálpa okkur að ná settum markmiðum.“

„Ég hef góða tilfinningu eftir heimsókn mína til SC Magdeburgar og hlakka til að koma til félagsins 2020. Magdeburg spilar góðan handbolta og áhorfendur eru frábærir. Mér lýst mjög vel á þá hugmyndafræði sem Bennet Wiegert þjálfari er með hjá Magdeburg og held að hún passi mér vel. Ég hlakka til að taka þessa áskorun þ.e. að spila í Bundesligunni og vil vinna titla með félaginu,“ segir Ómar Ingi.