-7.1 C
Selfoss

Eldhættan eykst með hverjum þurrum degi

Vinsælast

Talsvert hefur verið rætt um eldhættu undanfarið og möguleika á gróðureldum í þeirri þurrkatíð sem einkennt hefur júnímánuð. Brunavarnir Árnessýslu biðja fólk að fara varlega með eld, nú sem endranær. Blaðamaður hitti Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóra BÁ að máli og fór yfir málin.

Lítið bál verður fljótt að stórum eldi sé ekki varlega farið

„Fyrst og fremst skiptir máli að allir leggist á eitt og fari varlega með eld. Við höfum sem dæmi talað um að fólk varist að kasta sígarettustubbum út um glugga. Þá ætti að hafa í huga að afar varhugarvert getur verið að kveikja opinn eld í þessu tíðarfari. Eins fallegt og það er og mikil stemning sem myndast í kringum slíkt fer logandi glóð auðveldlega upp með reyknum og lendir annars staðar og úr verður eldur sem erfitt getur verið að ráða við. Við reynum því að höfða til fólks með að bíða betra færis með opin eldstæði sem dæmi,“ segir Pétur.

Hver og einn ætti að taka ábyrgð á sér og sínum og jafnvel þeim næsta

Aðspurður um hvernig slökkviliðið fari að því að hafa eftirlit með þessu öllu segir Pétur: „Það er ógjörningur að hafa augu alls staðar og þess vegna er mikilvægt að hvert og eitt okkar fari varlega og taki ábyrgðina. Það er svo auðvitað hið besta mál að hnippa í næsta mann ef vera skyldi að hann væri að bjóða hættunni heim fyrir öllum hinum. Þetta er samfélagsleg ábyrgð og við ættum öll að leggjast á eitt nú um helgina sem og aðra daga þ.e. að koma í veg fyrir slys eða óhöpp,“ segir Pétur.

Rétt að vera búinn að æfa flóttaleiðir

Hvað er rétt að hafa í huga þegar kemur að því að tryggja öryggi síns og annarra í sumarhúsinu eða útilegunni?

Það er best að ég telji upp nokkra lykilþætti í því samhengi:

  • Gott er að kynna sér öryggisnúmer á sumarhúsinu til að gefa neyðarlínunni upp ef neyðartilvik verður. Á það jafnt við um alla viðbragðsaðila. Þetta staðsetur húsið í okkar búnaði og við rötum rétta leið.
  • Öryggishlið inn á svæði geta reynst okkur erfið á stundum. Það er því mikilvægt að tilkynna neyðarlínunni hliðið og gefa viðbragðsaðilum leiðbeiningar um númer eða annað sem hjálpar okkur að komast sem hraðast á áfangastað.
  • Flóttaleiðum úr húsnæðinu og allur búnaður eins og slökkvitæki og sjúkrakassi ættu menn að kunna deili á. Þá er rétt að hugsa lengra og kynna sér hvernig hægt er að koma sér af svæðinu sé þess þörf t.d. vegna gróðurelds. Mikilvægt er að æfa þetta því það skilar bestum árangri, ekki síst fyrir yngri kynslóðina.

 

 

Nýjar fréttir