6.1 C
Selfoss

Forseti Íslands grillar til góðs á Kótelettunni

Vinsælast

Tónlistar- og grillhátíðin Kótelettan, SS, Golfklúbburinn Tuddi og Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna taka enn og aftur höndum saman og halda styrktarsölu á grilluðum kótelettum, svokölluðum styrktarlettum SKB, á Selfossi. Salan sem fer fram á dagskemmtun Kótelettunnar á Selfossi laugardaginn 8. júní kl. 13–16 er nú haldin í fimmta sinn og rennur allur ágóði af kótelettusölunni óskiptur til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna.

Tuddarnir munu að þessu sinni njóta sérstakrar aðstoðar forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyonar, sem verður þeim innan handar á grillinu og ætlar að selja kótelettur fyrir góðan málstað.

Undanfarin ár hefur verið mikil stemning við grillið, enda gaman að afgreiða glaða viðskiptavini sem vilja láta gott af sér leiða á sama tíma og þeir gleðja munn og maga með bestu kótelettum landsins. Markmiðið í ár er að selja 2.000 kótelettur og verður bæði hægt að kaupa grillaðar kótelettur til að borða á staðnum ásamt því að taka með og grilla heima eða í bústaðnum. Þeir sem ekki eiga heimagengt á kótelettusöluna gefst kostur á að styrkja Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna með því að leggja frjáls framlög inn á styrktarreikning 301-26-545 og kt. 630591-1129.

„Afraksturinn hefur síðustu þrjú ár numið um hálfri milljón í hvert sinn og það munar um minna í starfsemi félagsins, sem snýst um að styðja við bakið á fjölskyldum krabbameinsveikra barna, en 12–14 börn greinast með krabbamein á hverju ári á Íslandi. Þetta framtak er því bara frábært í alla staði; bragðgott og skemmtilegt fyrir góðan málstað,“ segir Gréta Ingþórsdóttir, framkvæmdastjóri SKB.

„Þessi sala á styrktarkótilettum er orðin fastur liður hérna hjá okkur á Kótelettunni, enda gaman að láta gott af sér leiða fyrir jafn mikilvægan málstað. Við erum þakklát fyrir það hversu margir hafa lagt Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna lið á þessum viðburði,“ segir Einar Björnsson, skipuleggjandi Kótelettunnar.

Nýjar fréttir