2.3 C
Selfoss

Ráðherra og nemendur gróðursettu tré í tilefni eflingar Yrkjusjóðs

Vinsælast

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gróðursetti trjáplöntur í Þorláksskógum á Suðurlandi í liðinni viku með hópi grunnskólabarna sem taka þátt í fræðslu- og gróðursetningarverkefni Yrkjusjóðs.

Tilefni gróðursetningarinnar var að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur undir áherslur er lúta að kolefnisbindingu og aukinni fræðslu.

„Yrkjusjóður hefur gert börnum um allt land kleift að taka þátt í að binda kolefni úr andrúmslofti. Með því að efla verkefnið geta enn fleiri börn tekið þátt í að takast á við eina stærstu áskorun þessarar aldar, loftslagsvána. Verkefnið felur jafnframt í sér endurheimt birkiskóga og lífríkis landsins sem stjórnvöld leggja nú stóraukna áherslu á,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins (Yrkjusjóður) var stofnaður í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur og var fyrsta úthlutun úr sjóðnum árið 1992. Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun grunnskólabarna á Íslandi og kynna þannig mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu. Yrkja á í formlegu samstarfi við alla grunnskóla í landinu og frá stofnun sjóðsins hafa grunnskólabörn gróðursett nærri 800 þúsund trjáplöntur á hans vegum. Ætla má að verkefnið hafi bundið um 20.000 tonn af CO2 sem sýnir hversu mikil áhrif skólaverkefni getur haft.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í Þorláksskógum ásamt hópi grunnskólabarna sem tóku þátt í fræðslu- og gróðursetningarverkefni Yrkjusjóðs.

„Skólabörn um allan heim hafa gert kröfu um meiri fræðslu um loftslagsbreytingar auk þess sem þau vilja taka þátt í að leysa vandann. Yrkjusjóður vill í því ljósi efla hlutverk sitt, ná til allra grunnskóla á landinu og auka fræðslu um endurheimt landgæða, skógrækt og kolefnisbindingu í gróðri,“ segir Andri Snær Magnason, stjórnarformaður Yrkjusjóðs.

Börnin sem tóku þátt í gróðursetningunni komu úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn en Þorláksskógar eru á Hafnarsandi þar skammt undan.

„Við komum hingað fyrir jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana. Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ segja Elísabet Marta Jónasdóttir og Alexander Guðmundsson, nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Nýjar fréttir