7.8 C
Selfoss

Samið um lengri hálendisvakt í sumar

Vinsælast

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hefur annað árið í röð ákveðið að auka framlag ráðuneytisins til Hálendisvaktar björgunarsveitanna til þess að unnt verði að hefja viðveru á hálendinu hálfum mánuði fyrr en ella. Viðbótarframlagið nemur 900 þúsund krónum. Með því getur Hálendisvaktin hafist um miðjan júní en alla jafna hefst hún ekki fyrr en í byrjun júlí. Aðstæður á hálendinu bæði í ár og í fyrra kalla á þessa auknu viðveru.

Hálendisvaktin er hluti af SafeTravel-verkefninu um öryggismál og slysavarnir ferðamanna. Það er samvinnuverkefni Landsbjargar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).

Ráðuneytið styrkir verkefnið árlega um 25 milljónir króna og SAF um 10 milljónir.

„Það var eitt af fyrstu verkum mínum í embætti ráðherra fyrir rúmlega tveimur árum að setjast niður með Landsbjörg og fræðast um SafeTravel-verkefnið,“ segir Þórdís Kolbrún. „Það fór ekki á milli mála hve gott og mikilvægt starf er unnið á vegum SafeTravel. Fáeinum vikum eftir fundinn renndum við því styrkari fjárhagslegum stoðum undir þetta mikilvæga verkefni með nýjum samningi sem fól í sér aukið fjárframlag. Viðaukasamningurinn núna kemur til af sérstökum aðstæðum en er í rökréttu samhengi við áherslur okkar á málefnið.“

Þórdís Kolbrún og Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skrifuðu undir viðaukasamninginn þann 22. maí 2019.

Nýjar fréttir