8.9 C
Selfoss

Héraðsskjalasafn Árnesinga opnar nýjan miðlunarvef

Vinsælast

Sérstakur miðlunarvefur hefur verið opnaður á vefsíðunni myndasetur.is. Það er Héraðsskjalasafn Árnesinga sem á heiðurinn að vefnum. Vefurinn er þrískiptur og skiptist í flokkana; ljósmyndir, miðlun og skjalaskrár. Að þessu tilefni hitti Dagskráin Guðmundu Ólafsdóttur, skjalavörð og kynnti sér nýjungarnar.

Ljósmyndahlutinn inniheldur yfir hundrað þúsund ljósmyndir

Mikill fjöldi mynda hefur borist Héraðsskjalasafni Árnesinga í gegnum tíðina. Yfir 100.000 myndir hafa verði settar inn á ljósmyndahluta vefjarins. „Myndirnar hafa verið skannaðar og skráðar eftir bestu þekkingu svo notendur geta einfaldlega notað leitarorð til þess að leita í myndasafninu. Við hvetjum sem flesta til þess að prófa að slá inn sitt eigið nafn og athuga hvort það leynist mynd af þeim á vefnum okkar. Héraðsskjalasafnið hefur haldið út myndavef sem þessum frá árinu 2013 en búið er að gera talsverðar breytingar á honum“, segir Guðmunda.

Auðveldara að senda inn athugasemdir við myndir en áður

Búið er að opna fyrir þann möguleika að notendur geti sent inn athugasemdir við stakar ljósmyndir. Þannig er orðið mun auðveldara að koma áleiðis upplýsingum um myndir eða ábendingum um villur í skráningu. „Við tökum vel á móti öllum athugasemdum því við viljum að sjálfsögðu hafa skráninguna sem besta og sem flestar myndir nafngreindar. Segja má að fjölmargir hafi komið að skráningu ljósmyndasafnsins okkar hingað til enda eru reglulega haldnir greiningarfundir þar sem einstaklingar fá tækifæri til þess að koma saman og greina ljósmyndir úr fórum skjalasafnsins auk þess sem okkur berast fjölmargar ábendingar“, segir Guðmunda.

Bækur sem varveittar eru af safninu orðnar aðgengilegar

Á miðlunarhluta vefsins er hægt að fletta heilu bókunum sem varðveittar eru á Héraðsskjalasafni Árnesinga. Síðustu ár hefur verið unnið að því að ljósmynda opnur úr handskrifuðum fundargerðabókum o.fl. með það í huga að gera þær aðgengilegar almenningi á netinu sem og til þess að eiga öryggisafrit af þessum merkilegu heimildum. „Þær bækur sem ljósmyndaðar hafa verið nú þegar eru fundargerðabækur hreppsnefnda í Árnessýslu, fundargerðabækur kvenfélaga, gjörðabækur Flóaáveitunnar, brunavirðingarbækur og félagsblöð ungmennafélaga. Fleiri flokkar eiga eftir að bætast við á komandi árum. Að gera þessi skjöl aðgengileg á netinu stórbætir þjónustu héraðsskjalasafnsins við almenning þar sem nú getur hver og einn skoðað þessi skjöl heima hjá sér, hvenær sem er sólarhringsins í stað þess að vera háður opnunartíma skjalasafnsins,“ segir Guðmunda.

 

Öflug leitarvél aðstoðar notendur við leit í skjalasafninu

Skjalaskrá er skrá yfir þau skjöl sem eru varðveitt á einstökum skjalasöfnum. Sá hluti miðlunarvefsins sem snýr að skjalaskrám er nýr og þetta er í fyrsta sinn sem notendum Héraðsskjalasafns Árnesinga er gert kleift að leita sjálfir í skjalaskrám safnsins. „Á vefnum geta notendur slegið inn leitarorð og þannig komist að því hvort einhvern tímann hafi verið afhent skjöl á safnið því tengd. Þannig geta notendur verið búnir að komast að því hvaða skjöl þeir vilja fá lánuð á lestrarsal áður en þeir mæta á staðinn og þannig sparað sér nokkurn tíma á safninu. Þess ber þó að geta að til að byrja með er aðeins hægt að leita í skjölum sem afhent voru árið 2004 eða síðar þar sem eldri afhendingar hafa ekki enn verið skráðar samkvæmt nýjustu stöðlum,“ segir Guðmunda.

 Söfnun á skjölum og ljósmyndum alltaf í gangi

„Það er okkar von að íbúar sýslunnar og aðrir velunnarar verði duglegir við það að nýta sér möguleika nýja vefsins enda er þar að finna miklar upplýsingar um sögu okkar og samfélagsins. Þó svo að möguleikarnir á internetinu séu orðnir fjölbreyttari eru gestir að sjálfsögðu áfram boðnir velkomnir á safnið á opnunartíma þess frá 9:00-16:00 alla virka daga nema miðvikudaga,“ segir Guðmunda aðspurð um hverjir nýta sér vefinn.

Erum sífellt að bæta við safnið

„Ég vil nota tækifærið og minna fólk á að söfnun á skjölum og ljósmyndum er sífellt í gangi. Þrátt fyrir að starfsmenn fari vítt og breytt um sveitir sýslunnar og að almenningur og stofnanir séu dugleg að skila inn skjölum þá má lengi bæta. Enn vantar okkur t.d. gamlar fundargerðarbækur frá ýmsum félögum í sýslunni sem og frá opinberum aðilum, t.d. elstu bækur Oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs. Við hvetjum alla sem hafa skjöl í fórum sínum að hafa samband við okkur og sjá þá hvort skjölin eigi erindi á safn þar sem þau eru varðveitt við góðar aðstæður og eru aðgengileg. Það sama á við um ljósmyndir en við hvetjum fólk til þess að halda áfram að færa okkur ljósmyndasöfn sem varpa ljósi á mannlíf og sögu Árnessýslu, segir Guðmunda að lokum.

 

 

 

Nýjar fréttir