9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ályktar um jöfnun raforkuverðs

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ályktar um jöfnun raforkuverðs

0
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ályktar um jöfnun raforkuverðs

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti ályktun á fundi sínum fyrir skömmu. Þar beinir sveitarstjórnin því til ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar að raforkuverð í dreifbýli og þéttbýli verði jafnað.

Þar segir enn fremur:
„Frá því að skipulagsbreytingar voru gerðar á raforkukerfinu árið 2005 hafa fyrirtæki sem annast dreifingu á raforku í þéttbýli og dreifbýli haft tvær mismunandi gjaldskrár, aðra fyrir dreifingu raforku í þéttbýli og hina fyrir dreifingu raforku í dreifbýli. Þrátt fyrir niðurgreiðslu frá ríkinu, með svonefndu dreifbýlisframlagi, er raforkuverð í dreifbýli enn hærra en raforkuverð í þéttbýli. Frá árinu 2015 hefur dreifbýlisframlagið verið fjármagnað með svonefndu jöfnunargjaldi, sem er lagt á alla almenna raforkunotkun.

Til að ná fullri jöfnun raforkuverðs fyrir alla landsmenn er áætlað að þurfi viðbótarframlag sem nemur um 900 milljónum á ári. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að nýta megi hluta af arði af rekstri Landsvirkjunar sem framlag til niðurgreiðslu raforkuverðs. Bent er á að í gegnum tíðina hefur verið rætt um að þegar skuldir Landsvirkjunar hafi verið greiddar niður muni arður af henni nýtast í þágu landsmanna. Það liggur beinast við að sá arður verði nýttur á sviði raforkumála og beinlínis í þágu landsbyggðarinnar, þar sem allar virkjanir Landsvirkjunar standa. Tímabært er að íbúar hinna dreifðu byggða sitji við sama borð og íbúar í þéttbýli hvað varðar raforkuverð og í raun hálf hjákátlegt að þeir sem búa næst uppsprettu raforkunnar, nærri virkjununum eða undir raflínum sem flytja orkuna á suðvesturhornið, skuli greiða hærra verð fyrir orkuna en þeir sem fjær búa.“