8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Fjárfestingar til framtíðar

Fjárfestingar til framtíðar

0
Fjárfestingar til framtíðar

Í umræðu um nauðsynlegar fjárfestingar í innviðum Sveitarfélagsins Árborgar, ber að hafa í huga að sveitarfélagið er áttunda fjölmennasta sveitarfélag landsins, þar sem íbúafjölgun nú og undanfarin ár hefur verið fordæmalaus í sögulegu samhengi. Með auknum íbúafjölda eykst umfang rekstrar sveitarfélagsins þar sem bæði tekjur og útgjöld aukast. Fjárfestingaþörf eykst og huga þarf að framtíðarfjárfestingum.

Bæjarfulltrúar meirihlutans í Árborg. F.v.: Helgi S. Haraldsson (B), Tómas Ellert Tómasson (M), Arna Ír Gunnarsdóttir (S), Eggert Valur Guðmundsson (S) og Sigurjón Vídalín Guðmundsson (Á).

„Ópið“
Ákall formanns Sjálfstæðisflokksfélagsins í Árborg í síðustu Dagskrá til ungmennafélagshreyfingarinnar á Selfossi um að hún beiti sér fyrir því að stöðva fyrirhugaða uppbyggingu á íþróttasvæðinu við Engjaveg á Selfossi er skiljanlegt. Ákall formannsins nú og félaga hans undanfarið um framkvæmdastopp er nefnilega rökrétt framhald á valdatíma D-lista Sjálfstæðisflokksins í Svf. Árborg. Það tímabil, sem stóð frá árinu 2010 til 2018 (sjá myndrit), skildi eftir sig tæplega 5 milljarða uppsafnaða fjárfestingaþörf ef eingöngu er miðað við meðal fjárfestingar Svf. Árborgar á hvern íbúa frá 2002, en á sjöunda milljarð ef miðað er við landsmeðaltal fjárfestinga allra sveitarfélaga landsins á sama tímabili.

Á þessu átta ára tímabili var lítið um beinar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og ekki var hugað að nauðsynlegri uppbyggingu innviða í takti við þá íbúafjölgun sem átti sér stað á þeim tíma og stendur enn. „Ópið“ úr herbúðum sjálfstæðismanna í Árborg nú er því vel skiljanlegt í ljósi sögunnar, þó ópið sé í hrópandi mótsögn við fjárfestingaþörfina og raunveruleikann.

Myndritið sýnir fjárfestingar Svf. Árborgar fyrir A- og B-hluta á hvern íbúa í þúsundum króna fyrir árin 2002–2018 (gráar súlur), fjárfestingaáætlun sem samþykkt var í desember (bláar súlur) og endurskoðaða fjárfestingaáætlun meirihluta bæjarstjórnar fyrir árin 2019–2022 (appelsínugular súlur) á föstu verðlagi í apríl 2019.
Brotalínan sýnir meðal fjárfestingu á hvern íbúa í Svf. Árborg árin 2002 til 2018, heila bláa línan sýnir meðal fjárfestingu sveitarfélaga á hvern íbúa á landsvísu árin 2002 til 2017 á föstu verðlagi í apríl 2019.
Myndritið sýnir einnig þróun íbúafjölda í Svf. Árborg (rauð lína) árin 2002 til 2019 með 5% íbúafjölgun á milli ára frá 2019 til 2022.
Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir þúsundir króna, lóðrétti ásinn til hægri sýnir íbúafjölda.

Fjárfestingaráætlun 2019–2022
Fjárfestinga- og kostnaðaráætlanir eru, eins og liggur í orðanna hljóðan, áætlanir sem sýna líklegasta stofnkostnað framkvæmda. Fjárfestingaráætlun er byggð á grófri forsögn og unnin með áætluðum fermetra og rúmmetraverðum byggðum á reynslutölum úr sambærilegum verkum. Óvissa slíkra áætlana með innbyggðum ófyrirséðum kostnaði geta verið töluverð. Eftir því sem að undirbúningi og hönnun framkvæmda vindur áfram og leiðbeinandi magntölur, efnisval og annað sem mótar mannvirkið verða til, verða til nákvæmari kostnaðaráætlanir.

Núverandi bæjarstjórnarmeirihluti lagði fram fjárfestingaráætlun í desember síðastliðnum sem náði til áranna 2019 til 2022, eins og lög gera ráð fyrir. Nú þegar undirbúningi og hönnun margra þeirra framkvæmda er í fullum gangi og nákvæmari framkvæmda- og kostnaðaráætlanir liggja fyrir frá hönnuðum, fer fram endurskoðun á þeirri áætlun. Sem dæmi, þá hefur framkvæmda- og greiðsluáætlun fyrir fjölnota íþróttahúsið verið lögð fram af fulltrúum Verkís. Sú áætlun gerir nú ráð fyrir að framkvæmdatími byggingarinnar nái yfir þrjú ár og greiðslur vegna verksins verði um 970 milljónir án virðisaukaskatts sem dreifast munu á fjögur ár í stað tveggja. Framkvæmda- og greiðsluáætlun Verkís hefur nú verið samþykkt og staðfest af meirihluta Eigna- og veitunefndar og Bæjarráðs, fulltrúar D-lista greiddu atkvæði á móti.

Það er markmið okkar sem skipum meirihluta bæjarstjórnar að grunnþjónusta sveitarfélagsins verði eins og best gerist, einn hluti af því er metnaðarfull stefna í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Ef við ætlum að vera samkeppnishæf á næstu árum um að fá fólk til þess að velja sér Svf. Árborg til búsetu, þarf aðstaða til æskulýðs- og íþróttastarfs að vera í fremstu röð. Það verður mikil gleðistund fyrir íbúa er fjölnota íþróttahúsið verður tekið í notkun þann 1. ágúst 2021.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson – Áfram Árborg
Helgi S. Haraldsson – Framsókn og óháðum
Tómas Ellert Tómasson – Miðflokki
Arna Ír Gunnarsdóttir – Samfylkingu
Eggert Valur Guðmundsson – Samfylkingu