0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Glórulausar fyrirætlanir bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg

Glórulausar fyrirætlanir bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg

0
Glórulausar fyrirætlanir bæjarstjórnarmeirihlutans í Árborg
Magnús Gíslason.

Síðastliðið haust var kynnt skýrsla um uppbyggingu á íþróttavallasvæðinu við Engjaveg á Selfossi. Það er svo sem allt gott um það að segja að kynntar séu háleitar hugmyndir og langtímasýn. Raunveruleikinn er hins vegar sá að Sveitarfélagið Árborg hefur ekki efni á framkvæmdum í fyrsta áfanga sem til stendur að klára fyrir vorið 2020. Þær eiga skv. áætlun að kosta 1,2 milljarða. Þau sem hér stjórna og ætla sér slíkt eru haldin einhverri veruleikafirringu og það er vert að vara við þessum hugmyndum. Hvers vegna má þá spyrja? Svarið er þetta; „því það stendur til að framkvæma þetta sama hvað það kostar“. Þessar framkvæmdir á íþróttavallarsvæðinu stendur til að fara í á sama tíma og farið er í aðrar mjög kostnaðarsamar framkvæmdir sem teljast sem grunnstoðir sveitarfélagsins og þarf nauðsynlega að framkvæma. Yfirbyggt fjölnotahús upp á 1,2 milljarða er munaður sem við getum því miður ekki leyft okkur á sama tíma og uppbygging á sér stað vegna sögulegrar fjölgunar í Árborg. Ég hvet Ungmennafélag Selfoss og alla aðra sem láta sem þeir sjái ekki þetta ábyrgðarleysi að endurskoða hug sinn. Það var fyrir ári síðan búið að komast að niðurstöðu um að byggja knatthúss upp á 450 milljónir. Allir hagsmunaaðilar voru sáttir við þá niðurstöðu.

Fyrirhugaðar framkvæmdir sem þarf nauðsynlega að framkvæma
Fyrsti áfangi nýs grunnskóla í Björkustykki mun kosta 2–2,5 milljarða. Nýr leikskóli sem þörf er á að byggja kostar 6–800 milljónir. Þá eru ótalin fjöldamörg önnur verkefni við innviði eins og fráveitustöð 1,5 milljarðar og annar verulegur kostnaður við þenslu sveitarfélagsins vegna fjölgunar. Þessi upptalning segir hverjum sem það vill skilja að þetta er meira en nógu stór biti fyrir Árborg að kyngja. Reksturinn er ekki öðruvísi en rekstur heimilis, það verður að sníða sér stakk eftir vexti. Það er ekki allt opið fyrir lánalínur frá Lánasjóði sveitarfélaga eins og nýlegt dæmi sýnir. Þegar lán var tekið núna í vetur upp á 600 milljónir sem átti að fara í framkvæmdir var skilyrði lánveitanda að eldra lán 580 milljónir yrði gert upp. Eftir voru þá 20 milljónir til framkvæmda. Þegar stjórn lánasjóðsins tók erindið fyrir og sá hvað er framundan í sveitarfélaginu mat hún þessa lánsumsókn svo og bókaði á eftirfarandi hátt: „Stjórn lánasjóðsins tók fyrir lánsumsókn Árborgar á síðasta fundi, síðastliðinn þriðjudag og var lánsumsókn fyrir 600 mkr. samþykkt. Lánsumsóknin var samþykkt þannig að 580 mkr. séu vegna afborgana eldri lána og 20 mkr. séu vegna framkvæmda ársins“. Þannig er nú staðan þegar kemur að aðgangi að lánsfé til framkvæmda í sveitarfélaginu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þessa stöðu.
En það er búið að vera að skoða „aðrar leiðir“ alveg frá síðasta hausti.

Sala á fráveitu viðruð af bæjarstjóra
Hugmyndin sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri viðraði á heimasíðu sveitarfélagsins í desember sl. um sölu á fráveitu Árborgar er algjörlega galin. Eigi þessi fyrirætlan að ganga eftir þarf að hækka gjöld á okkur íbúana. Það var ekki nema von að enginn bæjarfulltrúi meirihlutans treysti sér til að kynna þessa hugmynd. Það versta í þessu öllu saman er svo að það er ekki búið að slá þetta út af borðinu heldur hangir þetta yfir okkur íbúum Árborgar. Ég mótmæli þessu harðlega því að þessi gjörningur að selja innviði heitir að pissa í skóinn sinn. Sömu flokkar og nú eru við völd hikuðu ekki við að selja rafveitu Selfoss á sínum tíma. Töpuðust 150 milljónir af andvirði sölunnar í peningamarkaðssjóði í hruninu. Sporin hræða því óneitanlega þegar kemur að því að höndla með grunn innviði sveitarfélagsins.

Tekjuöflun í fjárfestingaráætlun sem gerð var síðasta haust stenst ekki
Þær tekjur sem áttu að skila sér vegna lóðasölu eru ekki að skila sér. Fyrsta árið átti að selja lóðir sem hefðu skilað sveitarfélaginu 600 milljónum. Nánast ekkert er selt upp í þessa áætlun því það er ekki byrjað á hverfinu sem átti að gefa mestu tekjurnar, Björkurstykki. Innan við hálfu ári eftir að fjárhagsáætlunin var gerð er hún einskis gilt plagg. Með því að fara í offjárfestingar og skuldasöfnun ríkur skuldahlutfallið upp úr öllu valdi og við lendum undir eftirlitsnefnd sveitarfélaga. Ég held ekki að íbúar Árborgar vilji að sveitarfélagið verði keyrt niður á þetta plan. Meirihlutinn í Árborg skipaður fjórum flokkum og sjö flokkabrotum stendur frammi fyrir miklum pólitískum vanda vegna allra sinna loforða. Hann er kominn með bakið upp að vegg eins og sagt er í íþróttunum.

Magnús Gíslason íbúi í Árborg