7.1 C
Selfoss

Hvaða veikindi og slys tilheyra bráðamóttöku eða heilsugæslustöð

Vinsælast

Skýrar línur eru um hvenær fólk á að leita á bráðamóttöku. Það er þegar um alvarleg veikindi er að ræða sem geta verið þess eðlis að fólk þurfi innlögn á sjúkrahús í kjölfar komu á bráðamóttökuna, hér er verið að tala um sem dæmi hjartaáföll, blóðtappa, bráðaofnæmi þar sem hætta er á andnauð, öndunarbilun, hjartabilun, nýrnabilun o.s.frv. Þegar fólk lendir í slysum þar sem um mikla áverka er að ræða svo sem stór slysa sár, brotin bein, árekstra þar sem hætta getur verið á innvortis blæðingum, fall úr hæð o.s.frv.

Á heilsugæslustöðvar leita þeir sem eru veikir og veikindin eru þess eðlis að þurfa ekki að fara á bráðamóttöku. Hér getur verið um að ræða hækkaðan blóðþrýsting, fótasár, sáraskiptingar, þvagfærasýkingar, eyrnasýkingar/eyrnabólgu, almenn veikindi, hita, hósta, andlega vanlíðan, slappleika, o.s.frv. Tilvísanir til sérfræðinga er sinnt á heilsugæslustöðvum í þeim tilfellum sem þess þarf.

Vottorð vegna endurnýjunar ökuleyfis, örorku eða á lyfjaskírteinum er allt sem kemur inn á heilsugæslustöðvar en fólk þarf að bera ábyrgð á að hafa samband í tíma, u.þ.b. einum til tveimur mánuðum áður en að kemur að endurnýjuninni.

Til þess að bráðamóttaka geti sinnt bráðveikum og slösuðum einstaklingum er mikilvægt að þeir sem eru minna veikir leiti á heilsugæslu en ekki bráðamóttöku.

Þeir sem munu leita á bráðamóttökuna á opnunartímum heilsugæslustöðva með tilfelli sem ekki þarfnast bráðameðferðar verður beint á þær heilsugæslustöðvar sem þeir tilheyra.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Birna Gestsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku HSU á Selfossi.

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslustöðvar Selfoss.

Nýjar fréttir