2.3 C
Selfoss

Af nautgriparækt í Hrunamannahreppi

Vinsælast

Á aðalfundi Nautgriparæktarfélags Hrunamanna sem var haldinn á Hótel Flúðum 17. apríl sl. kom m.a. fram að öll kúabú í Hrunamannahreppi eru í skýrsluhaldi eða 21 bú. Meðalbúið telur 56,9 árskýr og meðalinnlegg mjólkur er 353.266 lítrar. Hefð er fyrir því hjá félaginu að veita viðurkenningar fyrir góðan árangur félagsmanna varðandi afurðir og ræktun.

Afurðahæsta bú sveitarinnar á síðasta ári var hjá Ólafi Stefánssyni og og Ástu Oddleifsdóttur í Hrepphólum með 8003 kg af mjólk og 604 kg/MFP á árskú. Afurðahæsta kýrin árið 2018 var Randafluga 1035, Flugu og Boladóttir í eigu Fjólu Kjartansdóttur og Sigurðar Ágústssonar í Birtingaholti 4 með 13.947 kg í ársafurðir. Ræktunarbúi ársins er veitt viðurkenning minningasjóðs Jóhanns og Hróðnýjar frá Dalbæ fyrir mesta aukningu verðefna á milli ára. Birtingaholt 4 hlaut þennan heiður með aukningu uppá 112kg/MFP. Eigandi efnilegastu kvígu ársins fær Huppuhornið og kom það í hlut Margrétar og Aðalsteins á Hrafnkelsstöðum 3 fyrir Brynju 634,Túslu og Bambadóttur. Á síðasta ári var hæst dæmda naut úr árgangi 2012 Sjarmi 12090 frá Hrepphólum og var veitt sérstök viðurkenning fyrir það.

Að fundi loknum fóru félagsmenn að skoða nýjasta fjós sveitarinnar hjá þeim Margréti og Páli í Núpstúni. Í stjórn félagsins sitja þau Bogi Pétur í Birtingaholti 1, Marta á Kópsvatni og Fjóla í Birtingaholti 4.

 

Nýjar fréttir