8.9 C
Selfoss

Harpa Rún kosin formaður Bókabæjanna

Vinsælast

Bókabæirnir héldu aðalfund sinn á kaffihúsinu Gimli á Stokkseyri 30. apríl sl. Nokkrar breytingar urðu á stjórn en Heiðrún Dóra Eyvindardóttir færir sig úr formannsstólnum yfir í meðstjórnandasæti. Við keflinu tekur Harpa Rún Kristjánsdóttir. Þá kemur Pétur Már Guðmundsson nýr inn í stjórn og tekur við stöðu ritara. Svanhvít Hermannsdóttir situr áfram sem gjaldkeri auk varamannanna, Hlífar Sigríðar Arndal, Jóns Özurs Snorrasonar og Dorothee Lubecki, en Dorothee situr einnig í alþjóðastjórn IOB.

Á fundinum var ákveðið að láta félagsmenn njóta góðrar stöðu félagsins og rukka ekki félagsgjöld að svo stöddu. Samþykkt var að halda áfram föstum liðum eins og Margmálaljóðakvöldi og málþingi, en efla einnig ný verkefni sem tengjast bókum í breiðu samhengi. Áhugasöm eru hvött til að setja sig í samband við Bókabæina og fá aðstoð við að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd.

Að lokum skýrði Dorothee frá ferð sinni á aðalfund IOB í Ástralíu á síðasta ári, þar sem hún var kjörin í alþjóðlegu stjórnina. Hún sagði það merkilegt að sjá hversu lík áherslumál fólks á landsbyggðinni eru hvar sem er í heiminum og hvatti stjórnarmenn til alþjóðlegs bókelskandi samstarfs.

Nýjar fréttir