8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Sjálfbærar ofanvatnslausnir í Vorsabæ

Sjálfbærar ofanvatnslausnir í Vorsabæ

0
Sjálfbærar ofanvatnslausnir í Vorsabæ

Við deiliskipulagsgerð í Vorsabæ er sérstaklega hugað að sjálfbærum lausnum í meðferð regnvatns með það að markmiði að skila vatninu beint niður í jarðveginn í stað þess að veita því um regnvatnslagnir út í viðtaka. Þannig er líkt eftir náttúrulegu ferli vatnsins eins og það var áður en byggingarframkvæmdir hófust á svæðinu.

Sjálfbærar ofanvatnslausnir í deiliskipulagi í Hveragerði
Sú uppbygging sem verið hefur í Hveragerði undanfarin ár hefur kallað á mikla vinnu við deiliskipulagsgerð. Þar má nefna deiliskipulag fyrir Kambaland, Grímsstaðareit, Edenreit og Hlíðarhaga en þar eru samtals áformaðar um 435 íbúðir.

Uppbygging er nú þegar hafin á Grímsstaðar- og Edenreitum og 1. áfangi gatnagerðar í Kambalandi verður boðin út á næstunni. Vinna við deiliskipulag Friðarstaða er auk þess hafin en þar er gert ráð fyrir ferðatengdri verslunar- og þjónustustarfsemi í bland við íbúðarbyggð.

Athafnasvæði í Vorsabæ
Til að koma til móts við mikla eftirspurn eftir athafnalóðum þá er nú í auglýsingu tillaga að stækkun athafnasvæðis í Vorsabæ sunnan Suðurlandsvegar. Þar er gert ráð fyrir samtals 20 athafnalóðum og getur heildar byggingarmagn þar orðið allt að 34 þúsund fermetrar.

Við deiliskipulagsgerðina var sérstaklega hugað að sjálfbærum lausnum í meðferð regnvatns með það að markmiði að skila vatninu beint niður í jarðveginn í stað þess að veita því um regnvatnslagnir út í viðtaka. Þannig er líkt eftir náttúrulegum ferli vatnsins eins og hann var áður en byggingarframkvæmdir hófust á svæðinu. Þessar lausnir stuðla að hreinsun regnvatns, gefa grænna yfirbragð, viðhelda náttúrulegri stöðu grunnvatns og minnka álag á fráveitukerfi.

Á athafnasvæðinu í Vorsabæ verður regnvatni frá lóðum, götum og grænum svæðum veitt í opnar ofanvatnsrásir þar sem undirlag er gegndræpt og yfirborðsefni er gras eða gróður. Þannig sitrar regnvatnið auðveldlega niður í grunnvatnið í gegnum botn rásanna. Í mikilli úrkomu þegar ofanrásir hafa ekki undan þá streymir umframvatn eftir þeim að sérstakri laut þar sem vatnið sitrar smátt og smátt niður í grunnvatnið.

Innan lóða verður hugað að sjálfbærum lausnum s.s. með gegndræpu efni á bílastæðum, gróðurbeðum og grasi.

Guðmundur F. Baldursson, skipulagsfulltrúi Hveragerði.