-3.3 C
Selfoss
Home Fréttir Met mikils bækur þar sem frásagnargleði og þjóðfélagsrýni fléttast saman

Met mikils bækur þar sem frásagnargleði og þjóðfélagsrýni fléttast saman

0
Met mikils bækur þar sem frásagnargleði og þjóðfélagsrýni fléttast saman
Sigurður Pétursson.

Sigurður Pétursson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er sagnfræðingur og Vestfirðingur, fæddur og uppalinn á Ísafirði. Hann hefur gefið út bækur um sögu verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum og sögu knattspyrnunnar á Ísafirði. Núna er Sigurður kennari við Menntaskólann að Laugarvatni.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég var að enda við að lesa bókina Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur eftir Þórð Snæ Júlíusson og það er sláandi góð bók sem veitir gott yfirlit yfir alla þá gegndarlausu vitleysu og meðvirkni sem þjóðfélagið gekk í gegnum fyrir hrunið. Hún lýsir ekki síður átökunum um söguskoðun okkar um mat á hruninu, orsökum þess og afleiðingum í gegnum réttarhöld, fjölmiðla og skoðanamótendur. Holl lesning.

Oftast er ég með fleiri en eina bók í takinu og nú er ég að lesa Tíu dagar sem skóku heiminn – frásögn af októberbyltingunni skrifuð af sjónarvotti. Bókin er eftir bandaríska blaðamanninn John Reed sem upplifði byltinguna í Rússlandi haustið 1917 og lýsir átökum, aburðum og persónum á mjög lifandi og sannfærandi hátt. Hann lést úr taugaveiki árið 1920 og kvikmyndin Reds með Warren Beatty og Diane Keaton byggir á ævi hans. Bókin kom út á íslensku fyrir skömmu, en ég hafði lesið hana á ensku fyrir löngu síðan. Það er fagnaðarefni þegar út koma þýðingar á merkum bókum.

Þá er á náttborðinu hjá mér önnur þýðing, Þetta var bróðir minn: Theo og Vincent Van Gogh eftir franska rithöfundinn og blaðamanninn Judith Perrignon. Þetta er mjög sérstök bók sem lýsir nánu sambandi þeirra bræðra sem dóu með hálfs árs millibili 1890-1891. Ævi þeirra og samskiptum er lýst af sjónarhóli Theos á ljúfsáran hátt. Þótt að það sé kannski að bera í bakkafullan lækinn, þá er ég líka að glugga í sögu Héraðsskólans að Laugarvatni, Laugarvatnsskóli þrítugur, sem Bjarni Bjarnason skólastjóri tók saman og skrifaði að mestu. Þar er margt fróðlegt um sögu skólanna að Laugarvatni og þann frumkvöðlaanda sem einkenndi héraðsskólana á sínum tíma.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Svo sem sjá má hér að ofan, þá eru það einna helst sagnfræði og sögulegur fróðleikur sem höfðar til mín. Annars les ég líka skáldsögur, innlendar og erlendar, og hef náð að lesa nokkrar nú í vetur eftir Arnald Indriðason, Ólaf Gunnarsson, Einar Kárason, Vilborgu Davíðsdóttur og svo auðvitað nýju skáldsöguna hans Hallgríms Helgasonar sem er algert konfekt.

Lastu mikið sem barn?
Já, ég las mikið sem barn og unglingur. Og það var mikið talað um bækur. Ég man eftir heitum umræðum í afmælum eða skírnarveislum um bækur Kiljans, eins og amma mín kallaði Halldór Laxness, einnig bækur Þórbergs, Hagalíns eða Gunnars Gunnarssonar. Persónur og atburðir birtust í lifandi ljósi í frásögnum og tilvitnunum. Það fór ekki hjá því að maður yrði forvitinn að kynnast þessum höfundum og verkum þeirra. Svo kom tímabil þegar ég las heilu bókaflokkana af bókasafninu. Ég man eftir Bob Moran, James Bond og bókum Alister McLean. Þessar hasarbækur þóttu nú ekki merkilegar en voru spennandi og opnuðu ævintýraheima. Íslenskar skáldsögur, þjóðsögur og sagnfræði vöktu áhuga og ekki síður vandaðar þýðingar skáldverka svo sem Hundrað ára einsemd og Hús andanna, Ragtime og Nafn rósarinnar. Allt minnisstæðar bækur.

Hvernig eru lestrarvenjur þínar?
Áður las ég bækur oft í striklotu, en núorðið er það sjaldgæft. Þá sökk maður inn í söguefnið og gleymdi stund og stað. Nú les ég oftar og styttra í einu – sofna jafnvel í miðri setningu!

Áttu þér einhvern uppáhaldshöfund?
Frá unglingsárum hefur Þórbergur Þórðarson verið í sérstöku uppáhaldi. Það er alveg sama hvað sá maður skrifaði, það er allt jafnmikil snilld. Ég les eitthvað í Þórbergi á hverju ári, til að læra betri stíl. Þá eru suðuramerísku höfundarnir Gabríel Garcia Marques og Isabel Allende í miklu uppáhaldi þar sem frásagnargleði og þjóðfélagsrýni fléttast saman. Uppáhaldsbókin mín er þó Sturlunga, einkum höfuðrit hennar Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar. Það er sagnabrunnur sem alltaf er hægt að sækja í lifandi næringu fyrir sálina.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já, margoft. Núna síðast var það Sextíu kíló af sólskini, eftir Hallgrím Helgason. Sú bók er mikið meistaraverk.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Ég myndi skrifa stóra sögulega skáldsögu um það þegar íslenskt samfélag var að brjótast inn í nútímann. Fátækt fólk að flytja á mölina í von um sjálfstætt líf, þar sem nýir samfélagsstraumar takast á í stórum sagnasveig. En, viti menn! Hallgrímur Helgason er nýbúinn að skrifa þessa bók!