9.5 C
Selfoss
Home Fréttir Hafa lært íslensku af krafti í tæp tvö ár

Hafa lært íslensku af krafti í tæp tvö ár

0
Hafa lært íslensku af krafti í tæp tvö ár
Hópurinn ásamt Jaroslaw Dudziak kennara og Eydísi Kötlu Guðmundsdóttur náms- og starfsráðgjafa.

Áhugasamar konur hafa lagt stund á íslenskunám hjá Fræðslunetinu sl. tvö ár á Hvolsvelli. Þær luku íslensku 4 þann 28. mars sl. og hafa þá lokið 240 kennslustundum í íslensku. Kennarinn þeirra allan tímann hefur verð Jaroslaw Dudziak, kennari og löggiltur skjalaþýðandi. Hópurinn hefur sýnt og sannað að þeir sem stunda íslenskunám af kappi og taka a.m.k. eitt námskeið á önn ná oftast góðum árangri. Allar hafa þær nú náð nokkuð góðum tökum á íslensku og eru áhugasamar um frekara nám eins og kom fram þegar Eydís Katla náms- og starfsráðgjafi kom á útskriftina. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna hópnum ýmsa möguleika á frekari menntun og raunfærnimati.

Markmið næsta vetrar er að bjóða uppá námsleiðina „Íslensk menning og samfélag“ (áður Landnemaskóli). Námið er 106 klukkustunda langt og er tilgangur námsins að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðlögun að íslenskum vinnumarkaði og samfélagi. Í náminu er lögð áhersla á íslenskt mál, menningu, samfélag og atvinnulíf ásamt því að byggja upp sjálfstraust og samskiptafærni. Námið fer fram á íslensku og hentar þeim sem eru komnir með nokkuð góða færni í málinu.

Hópurinn vill endilega hvetja Íslendinga til að tala íslensku við þá sem eru að læra og dreymir um að fá tækifæri til að æfa sig markvisst í íslenskunni. Kom sú hugmynd m.a. fram að upplagt væri að óska eftir sjálfboðaliðum til að koma í íslenskutíma til að spjalla við íslenskunemana. Hver veit nema slíkt verði að veruleika.