1.1 C
Selfoss

Tónleikar með Skjálftavaktinni

Vinsælast

Hljómsveitin Skjálftavaktin er skipuð tíu sérvöldum tónlistarmönnum og -konum héðan og þaðan af landinu. Öll frá Íslandi, flest af Suðurlandi, sum frá Selfossi. Aðra heimabæi má nefna eins og til dæmis Eyrarbakka, Vík í Mýrdal og Hvolsvöll. Sveitin hefur verið starfandi frá árinu 2009 og hefur síðan þá verið mjög virk en að mestu að baki luktum dyrum. Tónleikar eru sérvaldir og afskaplega sjaldgæfir svo núna er tækifærið að detta í lukkupottinn. Á efnisskránni eru tónsmíðar eftir meðal annars Stevie Wonder, Earth, Wind & Fire, Jamiroquai, og já alla þá sem um var getið í fyrirsögn þessarar fréttar auk svo miklu fleiri hljómsveita og flytjanda. Fyrirhugað er að halda svokallaða „sitjandi” tónleika en það hefur verið reynsla Skjálftavaktarinnar að gestir munu ekki geta setið á sér og takturinn lokkar á dansgólfið.

Tvennir tónleikar eru fyrirhugaðir á næstu misserum og eru þeir fyrri föstudagskvöldið 29. mars og þeir seinni 5. apríl. Mælt er með að lesendur taki þessar dagsetningar frá.

Þann 29. mars verða tónleikar á einum af helstu sputnik tónleikastöðum landsins, Midgard Base Camp á Hvolsvelli. Undanfarið hafa nánast allir þekktustu listamenn landsins komið fram á Midgard og er hann að verða vagga menningarviðburða á Suðurlandi. Allar upplýsingar um starfsemi Midgard má finna á Fésbókarsíðu þeirra „Midgard Base Camp.” Miðasala fer fram við hurðina. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00 og það er upplagt að mæta vel tímanlega og njóta matar og drykkjar fyrir tónleika.

Svo eru tónleikar á Skyrgerðinni í Hveragerði þann 5. apríl. Skyrgerðin hefur glætt miklu menningarlífi í gamla félagsheimilið og þar hafa verið tíðir tónleikar og alls kyns uppákomur undanfarið. Salurinn er huggulegur og setur strax tóninn fyrir kvöldið við það eitt að ganga þar inn. Öflug dagsrká er framundan og er hægt að lesa sér til um það inn á Fésbókarsíðunni „Skyrgerðin.” Þar eins og á Midgard er kjörið að mæta tímanlega og þyggja mat og drykk. En tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 21:00.

Allar frekari upplýsingar má finna inn á Fésbókarsíðunni „Hljómsveitin Skjálftavaktin” og sýnishorn af gleðinni gæti fundist á YouTube.com ef slegið er inn „Skjálftavaktin”.

Meðlimir Skjálftavaktarinnar eru: Sigurður Ingi Ásgeirsson, Hljómsveitarstjóri á bassa, Guðjón Þorsteinn Guðmundsson á trommur, Karl Hákon Karlsson á gítar, Jóhannes Jóhannesson á hljómborð, Örlygur Ben á saxófón, Jóhann Ingvi Stefánsson á trompet, Eyþór Frímannsson á básúnu, Hjördís Ásta Þórisdóttir söngur, Jóhanna Ómarsdóttir söngur og Bessi Theodórsson söngur.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóði Suðurlands.

Nýjar fréttir