9.5 C
Selfoss

Fangaverðir sýnd í Bíóhúsinu á Selfossi

Vinsælast

Í tengslum við sýningarnar sem nú standa í Listasafni Árnesinga og Byggðasafni Árnesinga efna söfnin til tveggja sýninga í Bíóhúsinu á Selfossi á kvikmyndinni Fangaverðir eftir Ólaf Svein Gíslason myndlistarmann. Í Byggðasafni Árnesinga hefur verið sett upp sögusýning um fangelsið á Litla Hrauni í tilefni 90 ára afmæli þess. Þar er sögð saga fangelsisins og í forgrunni er þróun á starfsemi Litla-Hrauns sem stofnunnar, en einnig er litið inn í veröld fangavarða, fanga og samfélagsins í kring. Í Listasafni Árnesinga er sýningunni Huglæg rými að ljúka, en hún er innsetning sem hverfist um Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum í Flóa. Höfundur hennar er Ólafur Sveinn Gíslason myndlistarmaður.

Bíómyndin Fangaverðir var kvikmynduð í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg vorið 2014, á meðan fangelsið var í fullri notkun. Í myndinni leika tveir fangaverðir sem störfuðu þá í Hegningarhúsinu, þeir Egill Kr. Björnsson og Magnús Páll Ragnarsson, en jafnframt fara Sigurður Skúlason og Þorsteinn Bachmann með hlutverk í kvikmyndinni.

Vinnuaðstæður fangavarða eru mjög sérstakar; þeir vinna á landamærum hins frjálsa samfélags og þess afmarkaða rýmis sem fangelsið er, sem er lokað eftir ákveðnum reglum. Verkið fjallar um sýn fangavarðanna á starf sitt, daglega reynslu þeirra innan fangelsisins og hugrenningar um það viðmót sem þeim mætir utan fangelsis. Mörg málefni daglegs lífs í starfi þeirra eru til umfjöllunar, jákvæð og gagnrýnin sjónarmið á samskipti þeirra við fanga, sálrænt álag og andleg líðan. Einnig eru samskipti á milli fangavarðanna sjálfra þeim hugleikin og staða þeirra innan íslensks samfélags.

Svið Hegningarhússins við Skólavörðustíg er hlaðið áhrifamiklum örlögum sem lita orð og athafnir verksins, sem einnig má heimfæra á Litla Hraun. Fangaverðirnir bregða sér í hlutverk leikara og leikararnir klæða sig hlutverkum fangavarða. Líkt og í kvikmynd Ólafs í Listasafni Árnesinga þar sem Sigurður Guðmundsson á Sviðugörðum bregður sér í hlutverk leikara og aðrir þátttakendur, leikari og leikmenn, bregða sér í hlutverk Sigurðar en þar er sviðsmyndin alls ekki fangelsi heldur myndarbýli í Flóanum.

Eftir að Ólafur lauk myndlistarnámi 1988, bjó hann áfram í Þýskalandi og vann þar að myndlistarverkum sem sýnd voru í galleríum, listasöfnum og í opinberu rými víða í Evrópu og annars staðar, auk þess að sýna reglulega á Íslandi. Viðfangsefni hans eru oft einstaklingar, eða fjöldi einstaklinga, sem notendur rýma er tengjast málefnum samfélagsins og listrænum nálgunarleiðum. Birtingamyndir hans eru textar, byggingar eða líkön og kvikmyndir sem staðsettar eru í ákveðnum rýmum. Árið 2007 tók Ólafur við stöðu prófessors við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og flutti þá aftur heim. Frá árinu 2015 hefur hann verið með vinnustofu að Þúfugörðum í Flóa.

Sýningarnar verða í Selfossbíói laugardaginn 30. og sunnudaginn 31. mars kl. 17:00. Á fyrri sýningunni verður höfundurinn viðstaddur og boðið upp á stuttar umræður að henni lokinni. Ókeypis er á þessa frumsýningu á Selfossi og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangseyrir á síðari sýninguna er 1.000 krónur og miðar seldir á vef Bíóhússins, www.biohusid.is.

Nýjar fréttir