4.5 C
Selfoss

Hvetjum fólk til að koma og prófa

Vinsælast

Á Hótel Selfossi er starfrækt einstök heilsulind að evrópskri fyrirmynd undir nafninu Riverside Snyrting & Spa. Þó margir heimamenn kannist við nafnið eru eflaust fleiri sem vita ekki hvað þar er boðið upp á. Rétt er að taka fram að ekki þaf að vera gestur á hótelinu til að nýta sér þjónustuna. Fólk getur komið beint af götunni eða pantað sér tíma þegar því hentar.

Ljúft að slaka á og endurnærast
Á Riverside Snyrtingu & Spa er ljúft er að slaka á og endurnærast á líkama og sál í hlýlegu og notalegu umhverfi þar sem vísað er til íslenskrar náttúru í allri hönnun. Eldur, ís, vatn, gufa og norðurljós fléttast inn í hönnun baðstofunnar með einstaklega smekklegum hætti. Þar er einnig hægt að fá Aveda snyrtivörur, sem eru þekktar um heim allan.

Guðbjörg Þóra Sigurðardóttir er rekstrarstjóri Riverside snyrting og spa. Hún er snyrtifræðingur með meistararéttindi og vinnur sem slík á stofunni. Auk Guðbjargar vinnur einn snyrtifræðingur til á staðnum, Steinunn Aradóttir snyrtisveinn. Þá starfa einnig þrír nuddarar þar, Egija Vermane, Suphaphon Tangwairam og Sara Kristjánsdóttir. Sara Kristjánsdóttir, heilsunuddari er nýkomin til starfa og auk þess nýlega flutt á Selfoss.

Notalegt nuddherbergi á Riverside Snyrting & Spa. Mynd: ÖG.

Ótrúlega flott og góð aðstaða
„Við erum með lítið og sætt spa inn á Hótel Selfossi með ótrúlega flottri og góðri aðstöðu. Það er hægt að koma utan af götunni, án þess að vera hótelgestur, og fara í pottinn, þurrgufu, blautgufu eða slökunarherbergi. Einnig er hægt að fá sér að borða af léttum matseðli og bar sem við erum með. Hjá okkur er 16 ára aldurstakmark. Það má segja að þetta sé góður griðastaður. Við erum með fjöldann allan af meðferðum í boði líka. Það er hægt að koma bara á snyrtistofuna þ.e. fyrir fólk sem ætlar ekki í baðstofuna,“ segir Guðbjörg þegar hún er spurð út á hvað starfsemin gangi.

Hún bætir við: „Við bjóðum upp á þessar helstu snyrtimeðferðir eins og litun og plokkun, vax, handsnyrtingu, fótsnyrtingu og andlistmeðferðir. Svo erum við líka með nudd.“ Guðbjörg segir að þau hafi verið að stækka þann hluta og séu t.d. núna með taílenskt nudd, en þau hafa verið með slökunarnudd, bæði 50 mínútur og 25 mínútur. „Við erum einnig með höfuð-, háls- og herðanudd sem er hægt að panta sér í spainu. Þá er það framkvæmt þar niðri. Það er voðalega kósý, svona stutt nudd.“

Nuddari með mikla reynslu
Sara kom nýlega til starfa hjá Riverside snyrting og spa en hún er heilsunuddari. „Hún ótrúlega kröftugur nuddari með mjög mikla reynslu. Það er nýjasta viðbótin okkar. Þetta hefur lengi vantað, svona djúpt kraftmikið nudd. Við erum mjög spennt fyrir framhaldinu með það,“ segir Guðbjörg.

Byrjuð að nudda aftur
Sara var spurð út í bakgrunn sinn og reynslu. „Ég var með einkastofu í Hafnarfirði, í turninum í Firðinum. Ég vann líka í Laugum Spa hjá World Class í Reykjavík. Ég hefð bæði verið með mitt eigið og á ýmsum stöðum frá því ég útskrifaðist. Ég tók mér pásu og fluttist norður og bjó þar í tvö ár en er nýkomin suður og ætla mér að byrja að nudda aftur. Þannig að ég er að byrja aftur hér hjá Riverside Snyrtingu & Spa.“

Sara lærði heilsunudd í Heilbrigðisskólanum í Ármúla og útskrifaðist þaðan sem heilsunuddari. Heilsunudd er sambland af ýmsum nuddformum sem nemendur læra, m.a. klassískt nudd, sem er svipað og sænskt nudd, heildrænt nudd, shiatsu íþróttanudd og svæðanudd.

Djúpt slökunarnudd er svolítið minn stíll
Sara segir að hver og einn nuddari skapi sér svo sinn eigin stíl. „Það er mismunandi eftir hverjum og einum einstakling hvernig nuddið verður, hvort það verður djúpt eða grunnt eða flæðandi eða eitthvað svoleiðis. Ég er svolítið í djúpum nuddum. Ég hef mikla trú á þeim. Ég geri þau yfirleitt rólega en vil að fólk nái slökun engu að síður. Þannig að djúpt slökunarnudd er svolítið minn stíll.“ Hún bætir við að ef fólk sé með einhverja extra stífni í líkamanum þá leggi hún líka áherslu á að losa um það hjá fólki. „Það getur komið með þannig verkefni ef það er eitthvað svoleiðis í gangi hjá því. Það þarf ekki endilega að vera bara að koma til að slaka á. Það má líka vera eitthvað sem þarf að vinna á. Það er í boði líka. Við aðlögum nuddið að þörfum hvers og eins,“ segir Sara.

Frábært fyrir pör og vinahópa
Í lokin vildu þær Guðbjörg og Sara hvetja fólk eindregið til að koma og kíkja til þeirra og prófa, hvort sem það er í spaið eða að prófa einhverja meðferð. „Þetta er frábært fyrir pör, vinkonuhópa eða vinahópa. Við gerum tilboð í hópa ef fólk vill. Það er bara að slá á þráðinn og sjá hvort það er ekki eitthvað sem hentar.

Nýjar fréttir