1 C
Selfoss
Home Fréttir Séreignarsparnaður og húsnæði – mikilvægt úrræði fellt niður

Séreignarsparnaður og húsnæði – mikilvægt úrræði fellt niður

0
Séreignarsparnaður og húsnæði – mikilvægt úrræði fellt niður

Að greiða niður skuldir er árangursrík leið til eignamyndunar og eiga stjórnvöld á hverjum tíma að leitast við að skapa aðstæður sem hvetja íbúðaeigendur til að greiða niður skuldir eins og kostur er. Með því að greiða inn á íbúðalán með viðbótarlífeyrissparnaði nýtur viðkomandi skattaafsláttar og mótframlags launagreiðanda auk þess sem innborgunin lækkar heildar vaxtagreiðslu og verðbætur. Hér hefur verið um mikilvægt úrræði að ræða sem felur í sér skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar til íbúðakaupa og inn á höfuðstól húsnæðislána. Samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðum hefur þetta úrræði verið töluvert notað. Í dag nýta nokkur þúsund einstaklingar sér þetta úrræði og mánaðarlega berast á milli 300 og 400 nýjar umsóknir. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Hvað íbúðakaup varðar hafa þeir sem nýtt hafa sér þetta úrræði getað fengið séreign útborgaða skattfrjálst upp í kaup á íbúð. Inn á höfuðstól húsnæðislána hefur verið heimilt að greiða allt að 4% framlag launþega og 2% framlag launagreiðanda, hámark 500.000 krónur á ári fyrir einstakling en 750.000 krónur á ári fyrir hjón, eða aðra sem uppfylla skilyrði til samsköttunar.

Nýting séreignarsparnaðar felld niður þvert á ráðleggingar
Verð á fasteignum hefur hækkað verulega á undanförnum árum. Þrátt fyrir þetta hefur ríkisstjórnin ákveðið að falla frá heimild til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána. Áfram verður þó hægt að nýta séreignarsparnaðinn fyrir þá sem eru að kaupa íbúð í fyrsta sinn. Þetta var samþykkt í fjárlögum og á að taka gildi um mitt þetta ár. Hér er um óskynsamlega ráðstöfun að hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða. Starfshópur sem forsætisráðherra (júní 2017) skipaði til að fara yfir hlutverk lífeyrissjóða í uppbyggingu atvinnulífs lagði áherslu á að auka svigrúm til séreignar- og húsnæðissparnaðar.

Starfshópurinn leggur til að tryggður verði sveigjanleiki sjóðsfélaga til að nýta séreignarsparnaðinn til að greiða inn á húsnæðislán og / eða við kaup á íbúð.

Ekki verður sé annað en að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fella niður þetta mikilvæga úrræði gangi þvert á tillögur starfshópsins og eru það mikil vonbrigði.

Lagafrumvarp Miðflokksins – áfram verði hægt að nýta séreignarsparnað
Fyrir síðustu jól lagði ég til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið, þess efnis að heimildarákvæðið til nýtingar séreignarsparnaðar til íbúðakaupa og niðurgreiðslu íbúðalána yrði framlengt. Tillagan var því miður felld af ríkisstjórnarflokkunum.

Ég hef nú gert aðra tilraun og lagt fram á Alþingi lagafrumvarp um sama efni – að áfram verði hægt að nýta séreignarsparnaðinn til íbúðakaupa og sem greiðslu inn á íbúðalán.

Fróðlegt verður að sjá hvort að ríkisstjórnarflokkarnir; Vinstri grænir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur standi áfram í vegi fyrir þessu mikilvæga úrræði fyrir almenning.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.