0.4 C
Selfoss

Þjónusta Hrunamannahrepps við eldri borgara

Vinsælast

Eldri borgarar fá þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni aldraðra. Markmið laganna er að tryggja að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfa á að halda og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast miðað við þarfir hvers og eins. Einnig er markmið laganna að aldraðir geti eins lengi og unnt er búið við eðlilegt heimilislíf en sé jafnframt tryggð stofnanaþjónusta þegar hennar er þörf. Helstu þættir þjónustu við aldraða er stuðningsþjónusta á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilsugæslustöðva, dagvistun, hvíldarinnlagnir og búseta í dvalar- eða hjúkrunarheimilum.

Það er á ábyrgð sveitarfélaga að sjá um að veita þjónustu inn á heimili, þar sem hinn aldraði fær aðstoð við heimilsihald, persónulegt hreinlæti, félagslegan stuðning og heimsending matar.

Hrunamannahreppur rekur velferðarþjónustu í samvinnu við sex önnur sveitarfélög í Árnessýlu. Þegar aldraður einstaklingur vill sækja um þjónustu heim hefur hann samband við forstöðumann heimaþjónustu sem staðsettur er á Heilsugæslunni í Laugarási. Forstöðumaður fer í heimsókn til viðkomandi og metur þörfina á stuðningsþjónustu. Þörf fyrir stuðningsþjónustu er mjög einstaklingsbundin og er metin í hverju tilviki fyrir sig. Markmið með stuðningsþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum, við sem eðlilegastar aðstæður. Aðstoð er veitt við það sem hinn aldraði getur ekki lengur gert sjálfur. Þegar forstöðumaður og hinn aldraði í sameiningu hafa lagt mat á þjónustuþörf er gerður þjónustusamningur þar sem fram kemur hvaða verk viðkomandi þarf aðstoð við og hversu oft og lengi í senn viðkomandi þarf stuðningsþjónustu. Algengast er að veita þjónustu við almenn heimilisþrif og er sú þjónusta allajafna veitt hálfsmánaðarlega. Gjald er tekið fyrir aðstoð með þrif en önnur stuðningsþjónusta er endurgjaldslaus. Gjaldskrá er uppfærð árlega og er tekjutengd. Gjaldflokkar eru þrír (0 kr., 600 kr., 850 kr.) og miðar ákvörðun um gjaldflokk við allar skattskyldar tekjur þ.m.t. fjármagnstekjur.

Hrunamannahreppur býður upp á heimsendingu matar til þeirra sem eiga erfitt með að sjá um matseld. Matur frá skólamötuneyti á Flúðum, er keyrður til þeirra eldri borgara sem þurfa á því að halda og er þjónustan í boði alla  virka daga í hádeginu. Greitt er 700 kr. fyrir hádegismat og 170 kr. fyrir heimsendingu.

 

Nýjar fréttir