8.9 C
Selfoss

Það hafa orðið framfarir

Vinsælast

Bókabæirnir Austanfjalls stóðu fyrir stórskemmtilegu „Karlakvöldi“ sem bar yfirskriftina Hvað er svona merkilegt? í Tryggvaskála á Selfossi í liðinni viku. Að mati undirritaðs tókst með eindæmum vel að flétta saman ólík atriði og fjalla um þau í ljósi yfirskriftarinnar og kvöldið varð fyrir bragðið í senn fjölbreytt og skemmtilegt.

Kvöldið hófst með því að þeir bræður Gústav og Ólafur Stolzenvald fluttu kontrakvæði þar sem Gústav kvað og Ólafur lék undir á kontrabassa. Næst fræddi Ásta Kristín Benediktsdóttir viðstadda um doktorsverkefni sitt sem fjallar um Elías Mar og karlmennskukomplexa eftirstríðsáranna. Í grófum dráttum ræddi Ásta um hve þröng skilgreiningin á „alvöru karlmennsku“ í raun er. Einar Kári Jóhannsson kom næstur og fjallaði um stríðsbækur og karlmennsku. Nýverið var endurútgefin bókin Undir fána lýðveldisins eftir Hallgrím Hallgrímsson. Einar fjallaði um áhrif hennar á karlmennsku í íslenskum stríðssögum en höfundurinn, Hallgrímur Hallgrímsson, rekur í bókinni endurminningar sínar um Spánarstyrjöldina. Eftir þessa yfirferð var komið að því að færa áhorfendur í Saumastofu Kjartans Ragnarssonar sem sýnd er í Þorlákshöfn um þessar mundir. Þar var kominn Ingólfur Arnarsson, sem fór á kostum, í hlutverki klæðskerans Karls sem er kominn í kvenmannsföt og í miðjum klíðum að réttlæta hver hann er. Samhliða heyrðum við í móður hans, sem leikin er af Álfheiði Østerby, berja í hann sanna karlmennsku og hvetja hann til dáða þannig að hann verði ekki sama lyddan og faðir sinn, en ómögulega passar Karl inn í þennan karlmennskuramma móðurinnar.

Eftir að allt var fram reitt settust við pallborð kanónur úr stétt rithöfunda: Hallgrímur Helgason, Auður Ava Ólafsdóttir, Ragnar Jónasson og Bjarni Harðarson. Höfundarnir sátu fyrir svörum úr sal og heilmiklar umræður spunnust milli áhorfenda og höfunda um málefnin og atlaga gerð að því að kryfja málefnið til mergjar. Niðurstaðan varð altént sú að framfarir hafi orðið á karlmennskunni eins og öðru og ekkert nema gott um það að segja.

Gunnar Páll Pálsson

Nýjar fréttir