7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Að kasta krónunni og hirða aurinn

Að kasta krónunni og hirða aurinn

0
Að kasta krónunni og hirða aurinn
Sigurjón Vídalín Guðmundsson.

Á 9. fundi bæjarstjórnar Árborgar þann 27. febrúar sl. tók ég til máls undir lið 29 þar sem lögð var fram skýrsla Haraldar L. Haraldssonar hagfræðings á stjórnsýsluúttekt sveitarfélagsins Árborgar. Lýsti ég yfir ánægju minni með að hafa fengið þessa skýrslu í hendurnar og í henni kæmi ýmislegt gagnlegt í ljós sem nýta mætti til að bæta hag sveitarfélagsins bæði fjárhagslega og samfélagslega. Sem dæmi um það minntist ég á að í einhverjum tilfellum liti út fyrir að stjórn sveitarfélagsins hefði verið að spara sér til ógagns eins og ég orðaði það. Við þessum orðum firrtust mjög bæjarfulltrúar D-lista sem átt hafa sæti í bæjarstjórn sveitarfélagsins undan farin ár og töldu að ég væri að halda einhverju fram sem ekki stæðist eða ég hefði ekki vit á. Ekki ætla ég að rekja það frekar en bendi fólki á að hægt er að horfa á fundinn á facebook síðu sveitarfélagsins en sú ánægjulega nýbreytni var tekinn upp á þessum fundi að hann var í beinni útsendingu í hljóð og mynd og verður sá hátturinn hafður á eftirleiðis.

Að spara sér til ógagns
En aftur að orðum mínum að spara sér til ógagns. Síðan ég tók við formennsku í bygginga- og skipulagsnefnd hef ég lagt mig fram við að kynna mér vel starfsemi skipulags- og byggingasviðs og kom fljótt í ljós að þar var ekki allt með felldu. Þrátt fyrir mikið álag, allt að því ómanneskjulegt, undanfarin ár sökum mikillar fjölgunar í sveitarfélaginu hefur sviðið liðið fyrir manneklu sem gert hefur það að verkum að starfsmenn þess komast ekki yfir öll þau verkefni sem þeim ber að sinna. Af þeim sökum hafa þeir þurft að forgangsraða og hefur það bitnað beint á tekjuöflun sveitarfélagsins vegna þess að eitt af þeim verkefnum sem ekki hefur verið hægt að sinna er skráning byggingarstiga fasteigna til fasteignamats ríkisins en á þeim byggja fasteignagjöldin sem innheimt eru af sveitarfélaginu. Af þeim sökum er sveitarfélagið að tapa peningum á hverjum degi og eins og flestir vita má það illa við því að fullnýta ekki tekjustofna sína. Það sem er líka athugavert við að ekki næst að skrá byggingarstig fasteigna jafn óðum og breytingar verða, er að í því fellst mismunun milli íbúanna, þar sem sá sem er með rétt byggingarstig skráð á sinni fasteign greiðir hærri fasteignagjöld heldur en sá sem er ekki með það rétt skráð þó svo að báðar fasteignir séu á sama byggingarstigi.

Endurskipulagning bygginga- og skipulagssviðs
Það hefur því verið ljóst í nokkurn tíma að það þarf að ráðast í gagngera endurskipulagningu á bygginga- og skipulagssviði. Það verður m.a. gert með því að fjölga starfsfólki, uppfæra skráningarkerfi og verkferla ásamt því að taka í notkun rafræn samskipti og sjálfvirkni, þar sem það á við, og auka þannig skilvirkni sviðsins og bæta afkomu þess, bæði fjárhagslega og m.t.t. vellíðan og ánægju starfsfólksins. Á þann hátt er brugðist við ábendingum starfsmanna sviðsins og þjónustan við íbúana aukin. Þessi vinna er nú þegar hafin enda trúum við því ekki að það sé hagstæðara að kasta krónunni og hirða aurinn.

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi Á-lista og formaður bygginga- og skipulagsnefndar Árborgar.