8.9 C
Selfoss

Kvenfélagið Hallgerður í Fljótshlíð í gjafahug

Vinsælast

Þann 12. febrúar sl. voru konur í Kvenfélaginu Hallgerði í Fljótshlíð í gjafahug. Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli var fært spelkusett að verðmæti 115.200 kr. Harpa Sif Þorsteinsdóttir, varaformaður sveitarinnar, tók við gjöfinni.

Kvenfélagskonur ásamt, f.v: Emma Eir Ívarsdóttir, Sigurpáll Jónar Sigurðarson, Þorgerður Rán Þorkelsdóttir, Cynthia Anne Namugabe og Emelía Sif Sveinbjörnsdóttir.

Þennan sama dag fóru Hallgerðarkonur í Félagsmiðstöðina Tvistinn á Hvolsvelli og afhentu þar tvö borð og tólf stóla að verðmæti 135.300 kr. Borðin munu nýtast krökkunum til að borða nesti, spila, pússla o.fl. Þröstur Freyr Sigfússon tók við gjöfinni fyrir hönd Tvistsins.

F.v.: Guðlaug Ósk Svansdóttir, Auðbjörg Vordís Óskarsdóttir, Helga Sigurðardóttir, Sigríður Þyrí Þórarinsdóttir, Edda Þorvarðardóttir, Sigrún Þórarinsdóttir, Ingibjörg Elfa Sigurðardóttir, Margrét Runólfsson, Guðbjörg Júlídóttir, Sigurborg Óskarsdóttir, Sigríður Hjartar, Jóna Kristín Guðmundsdóttir og svo Kristín Jóhannsdóttir formaður sem heldur í hönd Ólafar Guðbjargar Eggertsdóttur, sem tók við gjöfinni.

Síðasta vor, við opnun nýrrar viðbyggingar á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli Hvolsvelli, færðu félagskonur heimilinu sjúkrarúm og náttborð að verðmæti 481.000 kr. Ólöf Guðbjörg Eggertsdóttir tók við þeirri gjöf fyrir hönd Kirkjuhvols.

Samtals hefur Kvenfélagið Hallgerður því látið heilar 731.500 kr. renna til nærsamfélags síns á innan við einu ári. „Það skiptir okkur í félaginu miklu máli að geta látið gott af okkur leiða og félög eins og okkar njóta meiri velvildar ef almenningur fær að sjá að við skiptum samfélagið máli,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Nýjar fréttir