1.7 C
Selfoss
Home Fréttir Fer aldrei ólesin að sofa

Fer aldrei ólesin að sofa

0
Fer aldrei ólesin að sofa
Ólafía Helga Þórðardóttir.

Lestrarhesturinn Ólafía Helga Þórðardóttir er fædd og uppalin í Þorlákshöfn en fór til Reykjavíkur eftir grunnskóla og varð stúdent frá Verslunarskóla Íslands. Eftir stúdentspróf vann hún í tíu mánuði í Lúxemborg við barnapössun sem hún segir að hafi verið mikil og góð reynsla fyrir sig. Þaðan fór hún í Tækniskólann og kláraði iðnrekstrarfræði. Núna er hún búsett í Þorlákshöfn ásamt manni og tveimur sonum, starfar sem skólaritari við Grunnskólann í Þorlákshöfn, prjónar af kappi, spilar á horn í lúðrasveitinni og elskar að fara í gönguferðir.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég var að ná mér í bókina Feigð eftir Stefán Mána og lofa fyrstu kaflarnir góðu. Það var starfsmaður á bæjarbókasafninu sem mælti með henni. Hljóðbókin sem ég er að hlusta á er Litla bakaríið við Strandgötu. Ég var búin að heyra marga tala um þá bók og finnst mér hún vera ágætis bók til að hlusta á.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Spennubækur höfða mest til mín. Einnig hef ég mjög gaman af ævintýrabókum, Harry Potter bækurnar þykja mér mjög skemmtilegar.

Ertu alin upp við bóklestur?

Ég las mjög mikið þegar ég var barn og var fastagestur á bókasafninu. Mér fannst líka skemmtilegast þegar það voru bækur í jólapökkunum og sum jólin fékk ég nánast eingöngu bækur að gjöf. Það voru bestu gjafirnar. Ég man eftir því að pabbi las oft og þá sérstaklega á jólunum. Hann hafði dálæti á spennusögum, ætli ég hafi ekki fengið áhugann á þeim frá honum. Föðuramma mín bjó hjá okkur í mörg ár og fór ég oft á bókasafnið til að sækja bækur fyrir hana. Það voru aðallega ævisögur sem hún hafði gaman af en ég er ekki enn komin á þann stað í mínum bókalestri. Ég man ekki eftir því að það hafi verið lesið fyrir mig, en þegar ég gat farið að lesa mér til gamans þá voru það  ævintýrabækurnar eftir Enid Blyton sem voru í uppáhaldi og bækurnar eftir Jennu og Hreiðar. Guðrún Helgadóttir skrifaði skemmtilegar bækur sem ég hafði gaman af og bækurnar eftir hana las ég einnig fyrir strákana mína. Bók sem ég las í haust og vakti áhuga minn var Sölvasaga unglings en sonur minn var að lesa hana í íslenskuáfanga í Fjölbrautaskóla Suðurlands Hún vekur mann verulega til umhugsunar og ræddum við töluvert um hana. Ég ætla klárlega að ná mér í framhaldið af henni og lesa við tækifæri.

En hvernig eru lestravenjur þínar?

Ég get ekki farið að sofa fyrr en ég hef lesið þó það séu ekki nema nokkrar blaðsíður. Það fer þó eftir því hversu spennandi bókin er hve lengi ég les í einu. Fyrir ári síðan uppgötvaði ég hljóðbókina og finnst það alveg frábært. Núna er ég alltaf með eina hljóðbók í símanum og hlusta til dæmis í garðvinnunni á sumrin eða þegar ég er að þrífa heimilið eða bílinn. Þegar ég fer ein í gönguferðir þá er ekkert betra en hlusta á góða bók.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Ég á mér engan sérstakan uppáhaldshöfund. Ég hef þó lesið allar skáldsögur eftir Arnald Indriðason, Yrsu Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson og nú vonast ég til að geta bætt Stefáni Mána í hópinn.

Hefur bók rænt þig svefni?

Yfirleitt hef ég ekki langan tími til að lesa fyrir svefninn á kvöldin. Til að bók ræni mig svefni þarf hún að vera mjög spennandi.

En hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Miðað við þær bækur sem ég hef valið mér til lestrar held ég að það yrðu spennusögur.