1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Minnkum, endurnýtum og endurvinnum

Minnkum, endurnýtum og endurvinnum

0
Minnkum, endurnýtum og endurvinnum
Höskuldur Þorbjarnarson.

Mikil umræða um sorp og umhverfismál er í gangi á Suðurlandi þessa dagana. Það er ekki að ástæðulausu því erfitt ef ekki ómögulegt hefur reynst að koma sorpi til urðunar frá okkur Sunnlendingum. Lengi tók Sorpa í Álfsnesi norðan Reykjavíkur við sorpinu okkar til urðunar en samningnum var sagt upp um síðustu áramót.

Nú er verið að leita að framtíðarlausn en þetta ástand ætti að vera okkur áminning um mikilvægi þess að sem minnst sorp fari yfirleitt í urðun. Urðun sorps er óumhverfisvæn, veldur sóun verðmæta og er afar kostnaðarsöm. Í Hveragerði hafa íbúar í mörg ár haft möguleika á að flokka ítarlega okkar sorp og gleðilegt er frá því að segja að Hvergerðingar eru mjög framarlega á landsvísu í flokkun. En betur má ef duga skal! Nánast allt sem við hendum er hægt að flokka og það er í flestum tilfellum ótrúlega auðvelt. Leiðbeiningar um flokkun má nálgast á heimasíðum sorphirðu aðila og eins á heimasíðum sveitarfélaganna.

Til að draga úr úrgangi sem fer til urðunar getur verið gott að hafa eftirfarandi í huga:

Minnkum úrgang: Besta leiðin til að draga úr magni sorps sem fer til urðunar er að draga úr neyslu í upphafi, sérstaklega varnings sem endist stutt og sem kemur í miklum umbúðum. Hver þekkir t.d. ekki að hafa pantað vöru af netinu og fá hana í umbúðum sem eru margfaldar að rúmmáli og þyngd á við vöruna sjálfa. Við þurfum alltaf að spyrja okkur sjálf hvort við virkilega þurfum tiltekin varning áður en við kaupum hann.

Endurnýtum: Oft erum við að henda hlutum sem eru í fínu lagi og geta enst lengi enn. Stundum er einnig hægt að framlengja líf hlutanna í öðru hlutverki. Oft getur líka verið að aðrir vilji nýta hluti sem við höfum ekki þörf fyrir lengur. Við getum auglýst hluti sem nýtanlegir eru á ýmsum vettvangi og einnig eru fyrirtæki og stofnanir sem taka við hlutum til endurnýtingar eða endursölu, þá oft í tengslum við góð málefni. Horfum til þess þegar kemur að því að losa sig við hluti sem ekki er þörf fyrir lengur hjá okkur

Endurvinnsla: Ef ekki eru aðrir möguleikar í stöðunni en að henda hlutunum er mikilvægt að koma þeim í réttan farveg. Nánast allt sem við látum frá okkur má endurvinna ef viljinn er fyrir hendi. Oftast er það eina sem við þurfum að gera að setja hlutina hreina í rétt ílát. Þetta á við bæði á heimilum og eins á endurvinnslustöðvum. Það getur hreinlega borgað sig fjárhagslega en eins og komið hefur fram nýlega í fréttum henda Íslendingar sífellt meira af umbúðum í ruslið sem hægt er að fá endurgjald fyrir.

Munum að við getum sjálf gert ótrúlega margt þegar kemur að bættri umgengi við umhverfið og þegar kemur að minnkun sorps þá er það alfarið í okkar höndum, íbúanna, að gera enn betur en nú er gert.

Höskuldur Þorbjarnarson, umhverfisfulltrúi Hveragerðisbæjar