1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Fjölgum gönguljósum á Selfossi

Fjölgum gönguljósum á Selfossi

0
Fjölgum gönguljósum á Selfossi
Jón Hjörtur Sigurðarson.

Á síðustu árum hefur umferð um aðalgötur bæjarins aukist jafnt og þétt. Umferðin hefur ekki eingöngu tengst ferðamönnum sem keyra í auknu mæli í gegnum bæinn heldur einnig vegna mikillar uppbyggingar sem hefur átt sér stað. Stór hópur fólks vinnur ennþá á höfuðborgarsvæðinu og keyrir gegnum bæinn að morgni til vinnu. Stór partur af þessari umferð hefur bæst á Austurveg og Eyraveg. Mikil uppbygging hefur átt sér stað vestan megin við Eyraveginn á síðustu árum og því meiri umferð. Heilt hverfi hefur risið þeim megin við Eyraveginn. Þegar horft er til öryggis á þessum götum er mikilvægt að hámarka það. Á morgnana fara mörg börn yfir götuna og hefur aukist jafnt og þétt.

Til að meta fjöldann er gott að horfa á fjölda skráðra barna í Vallarskóla á meðan uppbygging átti sér stað. Árið 2013 voru 524 börn skráð í skólann en eru 604 í dag. Fjölgunin nemur 80 börnum. Bróðurpartur barnanna kemur líklega úr nýja hverfinu hinum megin við Eyraveginn en einnig frá gölmu hverfunum, nær ánni, þar sem endurnýjun íbúa á sér stað. Umrædd börn þurfa yfir fjölfarna götu á leið í skólann en fá götuljós, sem auka öryggi þeirra, eru á leiðinni.

Frá hringtorginu við Jötun og Bónus að hringtorginu er um 1,5 km. Frá hringtorginu við Tryggvaskála og að enda iðnaðarhverfisins er svipuð vegalengd. Á Austurvegi eru 10 gangbrautir og ein gangbrautarljós og við Eyravegi eru 6 gangbrautir en engin gangbrautarljós.

Þegar horft er til fjöldans, sérstaklega barna, sem þarf yfir umræddar götur til að sækja þjónustu og skóla er mikilvægt að maður komist yfir þær á öruggan hátt. Vegna misskilnings sonar míns og ökumanns var keyrt á hann á gangbraut við Eyraveginn. Um helgina birtist frétt um að keyrt hafði verið á mann, á fertugsaldri, á einni gangbrautinni. Hámarka þarf öryggi gangandi vegfaranda á þessu svæðum. Oft reynist erfitt fyrir ökumenn að komast út á Eyraveginn og Austurveginn þegar umferðin er mikil og því nauðsynlegt að breyta rennsli bílanna.

Nauðsynlegt er að fjölga vel lýstum gangbrautarljósum yfir báðar göturnar. Gangbrautarljós við Kaffi krús væri góður kostur þannig að gangandi umferð yrði frekar beint þar yfir en á móti bókasafninu. Gangbrautin sem er gengt bókasafninu er nálægt hringtorginu og gróður þar í kring hamlar útsýni ökumanna og því eru gangandi vegfarendur í hættu. Við Eyraveginn þarf að bæta gangbrautarljósum a.m.k. tveimur. Önnur ljósin ættu að vera við Tónlistarskólann og hin á milli Þóristúns og Fossvegar, nánar tiltekið við innkeyrsluna inn í Lyngheiðina. Umferðaröryggi gangandi vegfarenda, yfir Eyraveg og Austuveg, myndi aukast til muna með uppsetningu þessara ljósa. Auk þess myndi flæði umferðar breytast til hins betra.

Bíðum ekki eftir að slysin gerist, byrgjum brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.

Jón Hjörtur Sigurðarson, íbúi á Selfoissi.