1.1 C
Selfoss

Jötunheimar fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi vinnu við öryggis- og viðbragðsmál innan leikskólans

Vinsælast

Brunavarnir Árnessýslu fengu heimsókn frá eldri deildunum í leikskólanum Jötunheimum á Selfossi á einn-einn-tveir-daginn sem haldinn var 11. febrúar sl. Börnin fengu stutta kynningu á starfsemi slökkviliðsins auk umræðu um neyðarnúmerið 112, eldvarnir heimilisins og mikilvægi reykskynjara. Að því loknu skoðuðu þau sig um í bílasalnum. Auk Brunavarna Árnessýslu voru Sjúkraflutningar HSu og Lögreglan á Suðurlandi með bíla sína til sýnis.

Krakkarnir voru hæstánægð með heimsóknina og voru fróðari um öryggismál á eftir og fóru með þá vitneskju heim til foreldra sinna.

Eftir hádegi voru yngri deildir í Jötunheimum heimsóttar með samskonar fræðslu frá Brunavörnum Árnessýslu, Sjúkraflutningum HSU og Lögreglunni á Suðurlandi.

Við það tækifæri afhenti Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, leikskólanum viðurkenningu fyrir framúrskarandi vinnu við öryggis- og viðbragðsmál innan leikskólans. Leikskólinn hefur að undanförnu unnið í öryggismálum sínum, m.a. með uppfærðri rýmingaráætlun, rýmingaræfingum og útbúið sérstakar rýmingartöskur sem hanga í neyðarútgöngum hverrar deildar.

Þess má geta að hugleiðingin varðandi hvort börn geti hringt úr snjallsímum í 112 kom frá starfsfólki Jötunheima. Sú hugleiðing var birt á facebook-síðu Brunavarna Árnessýslu eftir fyrirspurn frá leikskólanum og hefur fengið mestan lestur allra innleggja sem BÁ hefur sett inn á síðuna sína, en tæplega 41 þúsund manns hafa lesið færsluna (sem má finna hér https://www.facebook.com/…/a.368272840050…/957929444418225/…).

Nýjar fréttir