6.1 C
Selfoss

Heims um ljóð í FSu

Vinsælast

Miðvikudaginn 20. febrúar næstkomandi verða ljóð lesin gegn múrum og hindrunum í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Viðburðurinn hér á Selfossi er á vegum Bókabæjanna Austanfjalls og skipuleggjendur eru Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Özur Snorrason. Við ræddum tildrögin og viðtökurnar við Hörpu Rún.

Hvernig kom þetta til?

Harpa Rún Kristjánsdóttir.
Harpa Rún Kristjánsdóttir.

Þessi viðburður er hluti af fyrirbæri sem við köllum Heimsljóðahreyfinguna, World Poetry Movement á ensku. Hún er stofnuð í kringum ljóðahátíðina í Medelín í Kólumbíu um 1990. Forsprakkinn, Fernando Rendón, hefur um árabil staðið þar fyrir alþjóðlegri ljóðahátíð til að vinna gegn stríði og með friði og einingu. Þarna hafa íslensk skáld lesið, t.d. Linda Vilhjálmsdóttir, en það er í gegnum hennar vináttu við Rendón sem þessi ljóðahátíð kemur til Íslands.

Heimsljóðahreyfingin stendur á hverju ári fyrir einum alþjóðlegum viðburði, sem fer fram í sem flestum löndum. Í ár er það ljóðalestur gegn múrum og hindrunum í febrúar. Þetta er risaviðburður og hátt í 200 lönd sem taka þátt. Það er hægt að fylgjast með því sem heimsljóðahreyfingin gerir á facebook t.d. https://www.facebook.com/groups/1645220829119821/

Hvernig er viðburðinum háttað hér?

Linda og fleiri skáld ætla að lesa í Kringlunni, en mér fannst þetta strax kjörið fyrir Bókabæina að taka þátt í. Mig langaði að virkja skáldin okkar hér á svæðinu, ekki hvað síst yngri kynslóðina. Það var hluti af þeirri hugmynd að lesa í Fsu. Svo auglýstum við bara eftir skáldum.

Verða ljóðin að tengjast þemanu, múrum og hindrunum?

Ekkert endilega. Mér finnst í sjálfu sér nóg samstaða fólgin í því að mæta á viðburðinn og taka þátt. Hitt er síðan bara plús ef efni ljóðsins tengist þemanu, en við verðum líka að muna að múrar og hindranir geta verið svo margt.

Hvernig gekk að safna liði?

Það hefur gengið merkilega vel og við finnum fyrir miklum áhuga. Bókabæirnir á undanförnum árum reynt að hefja ljóðið upp, t.a.m. með mjög vel sóttum Margmálaljóðakvöldum í Hveragerði. Við vitum af fjölmörgum skúffuskáldum og sum þeirra munu birtast á Heims um ljóð. Önnur eru löglega afsökuð en við vitum samt af þeim, og munum kannski sjá þau seinna.

Hvernig er svo endanlegur hópur?

Við bætum við lesurum fram á síðustu stund, en hópurinn er ansi breiður og skemmtilegur. Það eru vísnamenn, ungskáld og skúffuskáld, flest héðan af Bókabæjasvæðinu. Svo fáum við smá sendingu úr Reykjavík, en Íslandsmeistarinn í ljóðaslammi, Jón Magnús Arnarsson, ætlar að flytja ljóðið sem hann samdi fyrir Heimsmeistarakeppnina í slammi núna í haust. Hann tekur kannski með sér fleiri skáld. Svo ætlar Magnús Kjartan Eyjólfsson Stuðlabandssöngvari að koma með gítarinn og syngja ljóð. Það verður því hægt að sjá ljóð í allskonar formi, sungin, slömmuð lesin. Ég held þetta verði falleg stund.

Þeir sem hafa áhuga á þessu geta sett sig í samband við Hörpu Rún með vefpósti netfangið harparunholum@gmail.com eða á Facebooksíðu hennar sem finna má með því að smella hér.

Nýjar fréttir