10 C
Selfoss
Home Fréttir Ert þú að gleyma að skila í pokastöðina?

Ert þú að gleyma að skila í pokastöðina?

0
Ert þú að gleyma að skila í pokastöðina?
Pokastöðin í Árborg. Mynd: GPP.

Þessari spurningu geta vafalítið margir Sunnlendingar svarað játandi. Undirritaður játar í öllu falli, undanbragðalaust, að hafa tekið poka og gleymt að skila, tekið annan, þar til að fjöldi pokanna var orðinn slíkur að þeim þurfti að skila í skjóli nætur. Það kom því vel á vondan þegar Dagskránni barst ósk frá Pokastöð Árborgar um að koma í heimsókn og kynna sér ferlið á bak við pokana. Markmiðið var að koma því á framfæri, með sem blíðlegustum hætti, að hvetja fólk til að skila pokunum og safna þeim ekki upp heima hjá sér. Raunin er víst sú að um 4500 stykki hafa verið framleidd og 4400 þeirra liggja einhvers staðar í fórum íbúa hér á Suðurlandsundirlendinu, jafnvel ónotaðir, sem er auðvitað ekki markmiðið með verkefninu.

Mikil vinna á bak við pokana

Það má með sanni segja að vinnan á bak við pokana sé ærin og handtökin fjölmörg við hvern poka. Aðspurðar að því hvað drífur þær áfram að sinna þessu í sjálfboðavinnu segja konurnar sem standa að baki Pokastöðvar Árborgar: „Það er auðvitað fyrst og fremst umhverfisins vegna, og enn frekar eftir alla plastumræðuna. Þetta er svo leið til að gefa til baka til samfélagsins, stuðla að aukinni umhverfisvernd og vitundarvakningu. Svo er félagsskapurinn skemmtilegur þó að við hittumst ekki oft því við skiptum með okkur verkum í saumaskapnum.“ Allt efni í pokana er endurnotað og þegar blaðamann bar að garði var verið að spretta upp gömlum gardínum og rúmfötum sem einhver hafði ákveðið að skipta út. „Okkur hefur alls staðar verið tekið vel, við fengið efnið gefins svo dæmi sé tekið. Þá hefur verkefnið verið styrkt, meðal annars af SASS og Krónunni.

Fáðu lánað og skilaðu aftur

„Kerfið er hugsað þannig að ef þú gleymir pokanum þínum heima getur þú fengið poka hjá okkur að láni undir vörurnar í því sjónarmiði að þurfa ekki að kaupa plastpoka eða þurfa að fara heim aftur að sækja pokann. Við viljum halda þessu áfram og halda kerfinu gangandi þannig að þessi þjónusta sé í boði. Með því að íbúar skili pokunum sem þeir eru ekki að nota gengur kerfið mun betur og pokastöðvarnar standa ekki tómar.“