8.9 C
Selfoss

Það er krefjandi starf að vera bóndi

Vinsælast

Blaðamaður Dagskrárinnar fékk hlýjar móttökur hjá þeim hjónum Hrafnhildi Baldursdóttur og Ragnari Finni Sigurðssyni, bændum á Litla-Ármóti í Flóahreppi, þegar hann heimsótti þau nú fyrir stuttu. Þau eru ungir bændur sem eru um þessar mundir að kaupa jörðina af foreldrum Hrafnhildar. Við kynnum okkur lífið í sveitinni þeirra og hvað það er að vera ungur bóndi í dag.

Lærðum heilmikið á veru okkar í Noregi

Hrafnhildur og Ragnar lærðu bæði í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Að því loknu fóru þau í framhaldsnám við landbúnaðarháskólann að Ási í Noregi. Hrafnhildur fór í nám í fóðurfræði nautgripa á meðan Ragnar nam byggingaverkfræði. Þess má geta að hann hannaði einmitt fjósið, sem nú er í byggingu hjá þeim hjónum, að miklu leyti. „Við unnum bæði þarna úti, bæði með náminu og eftir það. „Ég vann t.d. á bóndabæ sem fóðurfræðingur og Ragnar sem byggingaverkfræðingur hjá Norsk Landbruksrådgiving. Mitt mastersverkefni var í tengslum við NorFor, sem er fóðurmatsforrit fyrir kýr sem er notað m.a. hér heima líka. Verkefnið nýtist auðvitað beint í það sem við ætlum okkur hér heima,“ segir Hrafnhildur.

Árið 2012 sneru þau svo heim aftur eftir 5 ár í Noregi. „Við komum heim þarna um vorið, en við áttum von á okkar fyrsta barni og við vildum ekki festast í Noregi og ákváðum því að drífa okkur heim áður en barnið kæmi í heiminn, segir Hrafnhildur.“

Mikill fengur að hafa þekkinguna frá mömmu og pabba

Þegar heim var komið leigðu þau sér á næsta bæ og unnu á Litla-Ármóti samhliða foreldrum Hrafnhildar en tóku svo við rekstri búsins 1. maí 2013 og leigðu búið af þeim. „Við erum svo að kaupa búið núna og samhliða því að byggja hér nýtt fjós. Við gerðum það þannig að við tókum svona aðlögunarár 2012. Þau voru að draga saman og við að koma inn í búið og svo tókum við við 1. maí 2013, segir Ragnar.“ Hrafnhildur bætir við: „Ef maður ætti að ráðleggja öðrum í þessum hugleiðingum þá reyndist okkur vel að hafa nokkuð skörp skipti. Slíkt kemur í veg fyrir að margir séu að stýra sömu skútunni og reyndist okkur vel. Einnig er reyndar mikill fengur fyrir okkur að taka við af mömmu og pabba þar sem þekking þeirra er mikil á staðnum og gríðarlega gott að geta leitað ráða. Það er svo spurning hvort maður fer eftir þeim,“ segir Hrafnhildur glettin og hlær.

Krefjandi en ákveðin lífsfylling

Hvernig er að verða bóndi í dag, er þetta erfitt?

„Já, ég myndi segja það, eða kannski segja að þetta sé allavega mjög krefjandi. Fyrir mína parta þá hef ég dálitlar áhyggjur af framtíðinni þegar næsta kynslóð tekur svo við. Við erum færri og færri sem förum í þetta starf. Launin eru að hækka og hækka í þjóðfélaginu almennt, en eru heldur að lækka hjá bændum. Þá er rætt um styttingu vinnuviku og bændur eru alveg á skjön við það,“ segja þau bæði. „Fólk vill meira frí og þessar kröfur minnka ekki. Þess vegna er maður aðeins uggandi yfir þessu til framtíðar litið,“ segir Hrafnhildur.

Þannig að þessi rómantíska mynd sem gjarna er dregin upp af sveitalífinu er ekki raunsönn?

„Nei ég myndi ekki segja það. Sem dæmi má nefna að aðstaðan hér er gengin til ára sinna og við jafnframt að stækka. Þetta þýðir einfaldlega mikla vinnu og útsjónarsemi. Allt er skipulagt í þaula og maður horfir lengra fram í tímann. Búin eru að stækka og gripum að fjölga. Í stað þess að vera kannski með 30 burði á ári þá ertu kannski kominn með 60–80 burði á ári sem eykur vinnuna til muna þrátt fyrir aukna tækni. Einnig er vert að benda á að kröfurnar hafa aukist mikið um aðbúnað, sem er gott því það ætti að koma fram í bættum gæðum en þá þarf líka að muna eftir því að það kostar og erfitt að velta því eingöngu á framleiðandan.Þá verða bændur að muna eftir því  að gera kröfur líka.“

Hvað er það sem keyrir ykkur áfram í að verða bændur? 

Hrafnhildur hlær dátt og segir: „Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur, er það ekki? Nei, það er auðvitað vegna þess að maður sækir í þetta vegna þess að það er krefjandi. Maður er fyrir náttúruna og dýrin. Þá brennur maður fyrir þessu í hjartanu. Síðan sér maður árangurinn. Bæði að leggja til við matvælaframleiðsluna og þú sérð grasið sem þú varst að rækta og ætlar að gefa skepnum þínum heyfenginn um veturinn. Það er ótrúlega góð tilfinning. Einnig ertu þinn eigin herra með þitt eigið fyrirtæki. Ef við ætluðum að græða peninga, myndum við velja eitthvað annað starf. Þetta er ákveðin lífsfylling sem maður fyllir ekki uppí með pappír þ.e. peningum,“ segir Hrafnhildur.

Takmarkið að vera með gæðavörur og geta lifað af starfinu

Hver er framtíðarmúsikin hjá ykkur varðandi framleiðsluna?

Nýtt fjós í byggingu á Litla-Ármóti. Mynd: GPP
Nýtt fjós í byggingu á Litla-Ármóti. Mynd: GPP

„Við viljum framleiða gæðamjólk og gæðakjöt við sem bestar aðstæður fyrir dýr og menn. Við höfum bæði verið með uxa og svo hefðbundin naut í kjötframleiðslu. Munurinn á þessu er að uxarnir eru geldir af dýralækni, en það skilar sér í hægari vaxtarhraða og meiri fitusprengingu í kjötinu og kjötið verður mun meyrara. Margir þekkja að kvígukjöt er mjög meyrt. Uxakjötið er sagt vera stigi fyrir ofan það í gæðum. Við höfum fengið mikið lof fyrir þessa framleiðslu og erum að selja þetta til nokkurra fastakúnna og sá hópur fer stækkandi,“ segir Ragnar. Hrafnhildur heldur áfram: „Það er líka gaman að fólk hefur mikinn áhuga á uppruna vörunnar, vill þekkja okkur og vita hvernig kjötið er framleitt, að við séum að fara vel með skepnurnar og halda gæðum í hámarki. Ætli takmarkið hjá okkur sé ekki að vera með gæða vörur og geta lifað þokkalega af því sem við erum að fást við. Ragnar segir einnig að mikilvægt sé að skipuleggja og setja sér markmið til framtíðar, þar sem lokatakmarkið er að skila landinu í góðu standi fyrir næstu kynslóð og Hrafnhildur tók heilshugar undir.“ Lesendur sem hafa hug á að versla framleiðsluvörur af þeim hjónum, geta haft samband gegnum netfangið litlaarmot@gmail.com.

 

Nýjar fréttir