0.6 C
Selfoss

„Samfélagssáttmáli um líffæragjafir“ kynntur á Selfossi

Vinsælast

„Líta ber á lög um ætlað samþykki til líffæragjafar sem samfélagssáttmála um ákveðið viðhorf en alls ekki að allir séu skyldaðir til að gefa líffæri ef svo ber undir,“ sagði Runólfur Pálsson, læknir á Landspítala, á fundi með starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) 18. desember. Þau Jórlaug Heimisdóttir, verkefnisstjóri hjá landlækni, kynntu hvað fælist í breyttum lög um líffæragjafir, sem taka gildi um áramótin, og ræddu málið vítt og breitt við fundarmenn.

Meðal þátttakenda í fundinum var Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á HSU. Tengdafaðir hennar, Hafsteinn Kristinsson, stofnandi og forstjóri Kjöríss í Hveragerði, var fyrsti líffæragjafinn á Landspítala. Hann lést af völdum heilablæðingar 18. apríl 1993. Fjölskyldan tók erfiða ákvörðun á sorgarstundu fyrir hans hönd. Nánustu aðstandendur voru sammála um að það væri í anda Hafsteins að gefa lífæri til að lengja líf, bæta líf eða bjarga lífi einhverra annarra. Verðmætari gjöf verður ekki gefin.

Jórlaug og Runólfur, frummælendur á fundinum, lögðu ríka áherslu á að fólk ræddi líffæragjafir og skiptist á skoðunum til að viðhorf þess væru þekkt innan banda fjölskyldna. Þekkt eru dæmi um að hjón séu ósammála um hvort börn þeirra verði líffæragjafar ef þau sem foreldrar stæðu frammi fyrir slíkum ákvörðunum. Runólfur tók skýrt fram að líffæragjafir kæmu aldrei til álita ef einhverjir aðstandendur væru andsnúir slíku: „Ef misklíð er í aðstandendahópi er snarlega fallið frá hugmyndum um líffæragjafir. Við stuðlum að sjálfsögðu ekki að því að skilja við eftirlifendur í sárum eftir svona aðgerð séu þeir mjög andsnúir líffæragjöfum. Að sama skapi geta þeir úr fjölskyldum hugsanlegs líffæragjafa staðið eftir afar ósáttir með að fallið sé frá líffæragjöfum ef þeir styðja slíkt af heilum hug. Þetta getur því verið býsna snúið mál! Þess vegna er ráðlegt að ræða málin, viðra viðhorf til þess að gefa líffæri en ekki síður velta fyrir sér stöðu sem menn geta lent ef þeir geta bjargað heilsu sinni eða jafnvel sjálfu lífinu með því að þiggja líffæri.“

Eftir áramót verða allir landsmenn sjálfkrafa líffæragjafar, að undanskildum þeim sem skrá sig andvíga því að gefa líffæri. Þeir sem eru andvígir líffæragjöf geta skráð það sjálfir á vefnum heilsuvera.is eða fengið aðstoð lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum til að skrá afstöðu sína.

Nýjar fréttir