0 C
Selfoss
Home Fastir liðir Ennisband/kragi

Ennisband/kragi

0
Ennisband/kragi
Ennisband. Mynd: Hannyrðabúðin.

Í tilefni af nýju ári er hér mjög auðveld prjónauppskrift. Kannski einhverjir hafi gert áramótaheit um að læra eða rifja upp prjón og þá er þetta upplagt verkefni. Ennisband eða kragi sem prjónaður er með garðaprjóni á prjóna no. 10 með dásamlega mjúku og loðnu garni frá Perú sem heitir RICO, Fashion Light Luxury. Í garninu er 74% alpaka, 22% ull og 4% nylon. Prjónað er úr garninu tvöföldu.

Fitjið upp (eða biðjið einhvern vanan) 15 lykkjur með einföldu uppfiti. Prjónið slétt prjón fram og til baka, en við það verða til svokallaðir garðar og aðferðin er kölluð garðaprjón. Fyrsta lykkjan er alltaf tekin óprjónuð fram af prjóninum. Þegar komnir eru 40 garðar er garnið slitið frá en endinn hafður 40 sm langur. Þræðið grófa nál og saumið endana snyrtilega saman. Til eru ýmsar aðferðir og er gaman að skoða sig aðeins um á YouTube þar sem má finna mikið magn af námsefni sem tengist prjónaskap.

Gangið frá endunum.

Í myrkrinu er bráðnauðsynlegt að vera vel upplýstur með endurskinsefnum. Hér höfum við sett endurskinstölur til skrauts og öryggis. Einnig eigum við þráð sem vel má prjóna með garni eða sauma út með og þarf oft ekki mikið.

Hönnun: Alda Sigurðardóttir

Hannyrðabúðin hefur opin hannyrðakvöld einu sinni í mánuði og það fyrsta á þessu ári verður miðvikudaginn 9. janúar kl. 20–22. Byrjendur eru sérstaklega velkomnir. Fitjað verður upp fyrir þá sem vilja byrja á ennisbandi.