Áskorun til velferðaráðherranna

Notendaráð á fundi 10. desember. Frá vinstri: María Sigurjónsdóttir, Sigurjón Brynjarsson, Svavar Jón Árnason, Reynir A. Ingólfsson, formaður og Kári Halldórsson. Aðsend mynd.
Notendaráð á fundi 10. desember. Frá vinstri: María Sigurjónsdóttir, Sigurjón Brynjarsson, Svavar Jón Árnason, Reynir A. Ingólfsson, formaður og Kári Halldórsson. Aðsend mynd.

Notendaráð fatlaðs fólks á Suðurlandi hefur sent þeim Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, áskorun um að taka húsnæðismál Tryggva Ingólfssonar föstum tökum og leysa svo sómi sé að. Telur ráðið skýrt að um mannréttindabrot sé að ræða enda standi meðal annars eftirfarandi í lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. „Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir sínar og óskir…“. Það samræmist því ekki Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að þurfa að dvelja á spítala í heilt ár vegna skorts á úrlausn mála, enda Tryggvi frískur maður.

Tryggvi Ingólfsson hefur búið á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli síðastliðin 11 ár, þar sem hann hefur notið þjónustu og haldið heimili. Hann þurfti að fara í aðgerð á Landspítalanum í lok árs 2017 en hefur ekki átti afturkvæmt heim til sín vegna andmæla starfsfólks Kirkjuhvols og hefur því búið á bráðalegudeild Landspítalans í Fossvogi í rúmt ár. Samkvæmt læknum Tryggva hefur hann verið tilbúinn til útskriftar frá því 27. mars. Þykir notendaráði furðu sæta að ekki hafi fundist lausn á húsnæðismálum Tryggva en dvalarheimilinu Kirkjuhvoli hefur ekki tekist að undirbúa heimkomu hans á þeim sjö mánuðum sem liðnir eru frá því að aðgerðaráætlun var sett þar í framkvæmd til að undirbúa heimkomu hans.