6.1 C
Selfoss

Hægt að rækta 5-6 hektra í Áramótaskógi fyrir sölu Rótarskota

Vinsælast

Á veg Skógræktarinnar kemur fram að kaup landsmanna á Rótarskotum hjá björgunarsveitunum um nýliðin áramót nægja til ræktunar skógar á 5–6 hekturum lands. Þar segir einnig að skógræktarstjóri vonist til að björgunarsveitirnar og Skógræktarfélag Íslands haldi áfram að bjóða landsmönnum að kaupa Rótarskot um áramót og upp vaxi „Áramóta­skógar“ um allt land.

Rætt var við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra um aukna skógrækt í landinu í þættinum Reykjavík síð­degis á Bylgjunni síðastliðinn fimmtudag. Tilefnið var verkefni Landsbjargar og Skógræktarfélags Íslands sem efnt var til um nýliðin áramót að auk flugelda byðu björgunarsveitir landsins fólki að slá tvær flugur í einu höggi, styrkja starfsemi sveitanna og stuðla að aukinni skógrækt með því að kaupa svokölluð Rótarskot.

Fyrir hvert selt rótarskot verður gróðursett eitt tré á Hafnarsandi í Ölfusi þar sem er að hefjast mikil skóg­rækt á örfoka landi í samvinnu Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Sveitarfélagsins Ölfuss. Svæðið er kallað Þorláksskógar og þar hefur nú verið afmarkað sérstakt svæði fyrir Rótarskot björgunarsveitanna þar sem á að vaxa upp svokallaður Áramótaskógur.

Þröstur vonast til að björgunarsveitirnar og Skógræktarfélag Íslands haldi áfram á sömu braut. Framtakið sé geysigott og honum skiljist að Rótarskotin hafi selst því sem næst upp. Upplagið í þessari fyrstu atrennu var 15.000 rótarskot og af því má ráða að í sumar verði gróðursett tré í um það bil fimm til sex hektara fyrirhugaðs Áramótaskógar á Hafnarsandi.

Að sögn Þrastar er ekki búið að ákveða hvaða trjátegundir verði ræktaðar í Áramótaskóginum. Í Þorláks­skóga­verkefninu verði mismunandi áherslur eftir því hvar borið er niður á sandinum. Nærri Þorláks­höfn þar sem Áramótaskógurinn vex lík­lega upp sé gert ráð fyrir fjölnytjaskógi með blönduðum tegundum og lík­legast sé að skógurinn verði með því sniði. Áramótaskógurinn verði að minnsta kosti nýttur til útivistar, jarðvegsverndar og til að skapa skjól fyrir íbúa svæðisins. Framtíðin verði að leiða í ljós hvort hann nýtist einnig til timburnytja.

Þröstur var einnig spurður út í aukin framlög hins opinbera til skógræktar sem er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þröstur segir að skipulag þeirra auknu aðgerða sé komið vel á veg og meðal annars verði gróðursett strax í sumar á svæðum þar sem Skógræktin á í samstarfi við Landgræðsluna, á áðurnefndum Hafnarsandi, á Hólasandi og í Hekluskógum. Þá verði einhver aukning bæði í Land­græðslu­skógum sem Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með, í þjóðskógunum sem Skógræktin ræktar og í skógum bænda. Þetta sé byrjunin á aukinni skógrækt og svo bara aukist hún á næstu árum.

Nýjar fréttir