Jólakvöld hjá Leikfélagi Selfoss

Leikfelag Selfoss. Mynd: GPP
Leikfelag Selfoss. Mynd: GPP

Alltaf er jafn heimilislegt að koma við í litla rauða húsinu við Sigtún á Selfossi. Þar er til húsa Leikfélag Selfoss. Á dögunum voru þau með hið árlega Jólakvöld þar sem mættu góðir gestir og skemmtu sér og öðrum. „Þetta hefur verið haldið hjá okkur árlega núna í talsverðan tíma. Þetta er svona opið hús, allir koma með smákökur með sér og leggja saman í púkk á veisluborð. Fólk má síðan koma með atriði eins og söng, segja sögu eða hvað eina, segir Sigrún Sighvatsdóttir formaður Leikfélags Selfoss.

Það var hreint ekki komið að tómum kofanum þetta kvöldið frekar en önnur þegar Leikfélag Selfoss á í hlut. Þarna stigu á stokk söngvarar sem fluttu jólalög við undirleik, farið var með kvæði við gamlar stemmur en myndband af því má finna á dfs.is. Síðast en ekki síst var það hann Elli sem sagði jólasögu. Honum til halds og trausts, eða jafnvel dálítillar armæðu, var jólakötturinn sjálfur malandi með rjóma í skeið, við hlið hans á sviðinu. Kötturinn og frásögn Ella vakti mikla lukku hjá yngri kynslóðinni, sem veltist um af hlátri, og fylgdist grannt með því hvernig sögunni vatt fram. Ekki vantaði athugasemdirnar frá kettinum sem fékk snuprur frá sögumanni að launum. Allt fór þó að lokum vel og kötturinn sofnaði vært þannig að þau yngstu gátu slakað á í sætinu sínu, en ekki leist öllum jafn vel á kvikindið.