8.9 C
Selfoss

Fréttaannáll 2018

Vinsælast

Örstutt fréttaágrip af liðnu ári:

Janúar

Leikfélag Selfoss varð 60 ára á árinu. Félagið var stofnað að frumkvæði Kvenfélags Selfoss 9. janúar 1958. Leikfélagið hefur sett upp 82 leikverk á þessum 60 árum. Sérstök afmælisdagskrá var á árinu.

Jói Fel keypti Guðnabakarí á Selfossi. Guðnabakarí hefur verið rekið frá 1. júlí 1972 af fjölskyldu Guðna Andreasen. Hann lést í september 2017. Jói Fel keypti Guðnabakarí, sem nú heitir Guðni bakari, ásamt Kökuvali á Hellu.

Sigurður hlaut Menntaverðlaun Suðurlands. Sigurður Sigursveinsson hlaut verðlaunin fyrir fram lag sitt til eflingar menntunar með aðkomu sinni að átaksverkefnum í tengslum við uppbyggingu grunnnáms á háskólastigi sem og að stuðla að bættri aðstöðu til fjarnáms.

Febrúar

Byggt við kaupfélagshúsið á Hvolsvelli. Í húsnæðinu er lágvöruverslunin Krónan og á efri hæðinni skrifstofa Rangárþings eystra ásamt nokkrum þjónustufyrirtækjum.

Nýtt miðbæjarskipulag á Selfossi samþykkt. Nýtt skipulag var samþykkt með sjö atkvæðum bæjarfulltrúa B-, D- og Æ-lista gegn tveimur atkvæðum bæjarfulltrúa S-lista.

Flóaáveitufélagið 100 ára. Félagið sem var stofnað 8. febrúar 1918 gekkst m.a. fyrir stofnum Mjólkurbús Flóamanna sem tók til starfa 5. desember 1929. Var það gert til að koma auknum búafurðum á markað.

Mars

Dagskráin, fréttablað Suðurlands, 50 ára. Fyrsta blaðið kom út 29. febrúar 1968. Fyrir marga er blaðið fastur punktur í tilverunni en það kemur út á miðvikudögum í hverri viku. Einnig má lesa blaðið á vefnum dfs.is.

Oddur kjötmeistari ársins. Oddur Árnason hjá SS hreppti titilinn kjötmeistari Íslands 2018. Oddur hlaut auk þess viðurkennigar fyrir athyglisverðu nýjung keppninnar, bestu vöruna unna úr nautakjöti, og lambaorðuna fyrir Tindfjallahangikjet.

Ný Krambúð opnuð á Selfossi. Krambúðin býður upp á það allra nauðsynlegasta í matvöru og leggur áherslu á að leysa þarfir þeirra sem eru á hraðferð. Einnig er opnunartími lengri.

Apríl

Undirskriftasöfnun vegna íbúakosningar. Bæjarstjórn Árborgar samþykkti erindi frá þremur einstaklingum um að setja af stað undirskriftasöfnun um íbúakosningu vegna deili- og aðalskipulags fyrir miðbæ Selfoss.

Listakosning í Ásahreppi. Í fyrsta sinn kom fram listi í Ásahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningar. Þar var um að ræða L-listann. Síðan bættist við E-listi Einingar við og voru því tveir listar í boði.

Bíóhúsið á Selfossi opnað. Bíóið opnaði eftir breytingar með frumsýningu á stórmyndinni Avengers Infinity War. Nýir rekstraraðilar eru Marinó Lilliendahl og Kristján Bergsteinsson ásamt Hótel Selfoss.

Maí

Ölfus sigraði Útsvarið. Lið Sveitarfélagsins Ölfuss sigraði lið Ísafjarðar í úrslitaviðureign í Útsvarinu. Í liði Ölfuss voru Árný Leifsdóttir, Hannes Stefánsson og Magnþóra Kristjánsdóttir.

Framkvæmdir á Edenreit í Hveragerði hófust. Alls verða 77 íbúðir byggðar á Edenreitnum en þar er líka gert ráð fyrir gróðri og gróðurhúsum til að halda í söguna.

Samið um byggingu 44 leiguíbúða í Árborg. Sveitarfélagið Árborg og Bjarg íbúðafélag skrifuðu undir samning um byggingu allt að 44 leiguíbúða í sveitarfélaginu. Íbúðirnar eru ætlaðar tekjulágum fjölskyldum.

Júní

Nýr meirihluti myndaður í Árborg. Nýr meirihluti Áfram Árgorgar (Á), Framsóknar og áháðra (B), Miðflokksins (M) og Samfylkingarinnar (S) var myndaður í Árborg og málefnasamningur undirritaður við Húsið á Eyrarbakka.

Listasafnið hlaut Íslensku safnaverðlaunin. Listasafn Árnesinga hlaut verðlaunin m.a. fyrir fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar og að veita gott aðgengi að myndlistararfi þeim sem það varðveitir.

Ný göngubrú yfir Svartá við Árbúðir. Tilkoma brúarinnar er liður í að vernda viðkvæma náttúru hálendisins í Biskupstungum og ekki síður liður í þeirri hugsun heimamanna að stýra umferð ferðafólks.

Júlí

Ásta Stefánsdóttir kvödd eftir 12 ára starf. Ásta starfaði hjá Sveitarfélaginu Árborg frá 2006, fyrst sem bæjarritari og síðan tvö kjörtímabil sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Ásta var síðan ráðin sveitarstjóri Bláskógabyggðar.

Bæjarstjórskipti í nokkrum sveitarfélögum. Gísli Halldór Halldórsson var ráðinn bæjarstjóri í Árborg, Elliði Vignisson í Ölfusi, Valtýr Valtýsson í Ásahreppi, Ásta Stefánsdóttir í Bláskógabyggð, Anton Kári Halldórsson í Rangárþingi eystra og Þorbjörg Gísladóttir í Mýrdalshreppi.

Ný sjálfsafgreiðslustöð N1 á Hvolsvelli. Fyrsta sjálfsafgreiðslustöð N1 opnaði á Hvolsvelli með þrjá sjáfsafgreiðslukassa. Kassarnir dreifa álagi og flýta m.a. fyrir þeim sem eru með fáa hluti.

Ágúst

Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn. Unglingalandsmótið var fjölmennt og heppnaðist vel. Um 1300 keppendur tóku þátt í íþróttakeppni sem var fyrir 11–18 ára. Um 330 þeirra voru af sambandssvæði HSK.

Meirihluti hlynntur nýjum miðbæ. Tæp 60% íbúa sem tóku þátt í íbúakosingu í Árborg um nýjan miðbæ Selfoss voru hlynt breytingu á aðalskipulagi og tæp 56% breytingu á deildiskipulagi. Niðurstaða kosninganna var bindandi fyrir bæjarstjórn.

Lokun á Ölfusárbrú. Nýtt brúargólf var steypt á Ölfusárbrú mánudaginn 13. ágúst. Verkefnið gekk vonum framar en notaðar voru hjáleiðir og viðbragðsaðilar voru staðsettir fyrir utan á.

Rakarastofan 70 ára. Rakarastofa Björns og Kjartans fagnaði 70 ára afmæli sínu 15. ágúst. Jafnframt fagnaði Björn Ingi Gíslason 50 ára sfarfsafmæli sínu hjá stofunni.

September

Nýr kortavefur fyrir Suðurland. Vefurinn sem er eign SASS, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, er gagnvirkur og tengdur fjölmörgum stofnunum.

Samið um færslu golfbrauta. Golfklúbbur Selfoss og Vegagerðin gerðu með sér samkomulag um aðlögun Svarfhólsvallar að fyrirhuguðum nýjum þjóðvegi 1 norður fyrir Selfoss með nýrri brú á Ölfusá.

Kröfu um ógildingu íbúakosninga hafnað. Kæru vegna íbúakosninga í Árborg var hafnað af kjörnefnd Sýslumannsins á Suðurlandi. Kærunni var áfrýað til dómsmálaráðuneytisins en var hafnað þar líka.

Aldís kjörin formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, var fyrsta kvenna kjörin formaður sambandsins. Aldís hlaut yfirburðakosningu.

Október

Ölfus hafnaði urðunarstað. Tekist var á um urðunarstaði í sveitarfélaginu m.a. á íbúafundi. Málinu lyktaði með því að bæjarstjórn hafnaði hugmyndum um að opna á ný urðunarstað í Kirkjuferjuhjáleigu eða á Nessandi.

Ný aðveitustöð í Vík. Aðveitustöðin er mikilvægur liður í að mæta aukinni rafmagnsnotkun í Vík og nærliggjandi sveitum og bætir afhendingaröryggi rafmagns.

Rannsóknarsetur á Laugarvatni. Rannsóknasetrið sem sett verður á laggirnar í samvinnu við Háskóla Íslands og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, mun sinna rannsóknum, námi og annari fræðslu um sveitarstjórnarmál.

Kötluráðstefna í Vík. Vegleg ráðstefna var haldin í Vík í Mýrdal tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Kötlugosið var 1918. Til umfjöllunar var megineldstöðin Katla og áhrif hennar á náttúru og samfélag í Mýrdal.

Nóvember

Byrjað á nýjum miðbæ á Selfossi. Skóflustungur að nýjum miðbæ voru teknar laugardaginn 17. nóvember. Með þeim hófust framkvæmdir við nýjan miðbæ á Selfossi.

Míla kaupir ljósleiðarakerfi í Rangárþingi eystra. Kerfið nær til heimila og fyrirtækja í dreifbýli sveitarfélagsins, í Fljótshlíð, Landeyjum og Hvolhreppi. Áður hafði Míla fest kauð á ljósleiðarakerfinu undir Eyjafjöllum.

Nytjamarkaðurinn 10 ára. Nytjamarkaðurinn á Selfossi hóf starfsemi sína 2008. Markaðurinn er rekinn af Hvítasunnusöfnuðinum á Selfossi og rennur ágóði til góðgerðarmála.

Desember

Kallað eftir nöfnum á nýjar götur. Sigtún þróunarfélag ehf. ákvað að leita til íbúa í Árborg eftir nöfnum á tvær götur sem liggja í gegnum nýjan miðbæ Selfoss.

Glæsileg fullveldishátíð á Kirkjubæjarklaustri. Hátíðin var haldin í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri í tilefni 100 ár fullveldishátíðarinnar. Íbúar unnu saman að undirbúningi og heppnaðist hátíðin vonum framar.

Nýtt pósthús opnað á Selfossi. Íslandspóstur á Selfossi flutti alla starfsemi sína úr húsnæði við Austurveg í nýtt og glæsilegt húsnæð við Larsenstræti.

 

Nýjar fréttir