14.5 C
Selfoss
Home Fréttir Ofvirk þvagblaðra hjá eldri konum

Ofvirk þvagblaðra hjá eldri konum

0
Ofvirk þvagblaðra hjá eldri konum
Mercy S Washington

Hvað er ofvirk þvagblaðra (Overactive bladder syndrome)?

Ofvirkni í þvagblöðru einkennist af sterkri og bráðri þvaglátaþörf, með eða án þvagleka.

Ofvirkni í þvagblöðru er ein tegund vandamála við þvaglát sem hefur víðtæk áhrif á lífsgæði kvenna.

Vandamál tengd þvaglátum eru vaxandi hjá eldra fólki. Þau koma fyrir hjá báðum kynjum en eru nokkuð algengari hjá konum en körlum og tíðni þeirra eykst með hækkandi aldri. Sjúkdómar, lyf og öldrunarbreytingar í vefjum þvagfæra hafa áhrif á þvaglátin og breyta bæði þvaglátsþörf og mynstri. Þvagleki, tíð þvaglát og næturþvaglát hafa neikvæð áhrif á lífsgæði og valda oft félagslegri einangrun og vanlíðan. Þvagleki er einnig algeng orsök þess að aldraðir einstaklingar ráða ekki lengur við að búa heima. Margt eldra fólk telur þó tíð þvaglát, næturþvaglát og þvagleka vera eðlilegan samfara hækkandi aldri. Ýmis konar sjúkleiki í taugakerfi getur einnig valdið ofvirkni í blöðrunni, þar á meðal Parkinson sjúkdómur, MS sjúkdómur, heilablóðfall og ýmsir heilabilunarsjúkdómar. Ýmis lyf t.d. þvagræsilyf eða sjúkdómur eins og sykursýki geta gefið sömu einkenni og sjást við ofvirka blöðru.

Almenn meðferð

Blöðruþjálfun er oft fyrsta meðferð við ofvirkri blöðru. Grindarbotnsþjálfun, sem aðallega hjálpar konum með áreynsluþvagleka, getur einnig hjálpað konum með bráðaþvagleka og getur jafnvel gagnast við ofvirkri blöðru án þvagleka. Einnig er hægt að meðhöndla ofvirka þvagblöðru með lyfjum.

Breytingar á lífstíl geta haft góð áhrif, aukin hreyfing og takmörkun vökvainntöku að kveldi getur minnkað næturþvaglát. Hins vegar ber að varast of litla vökva inntöku eins og algengt er hjá öldruðum, því mjög sterkt þvag í blöðru veldur ertingu og getur aukið einkennin. Einnig geta reykingar og mikil neysla koffíndrykkja valdið ertingu í vöðvanum í blöðruveggnum. Hægðatregða getur haft slæm áhrif á blöðrustarfsemi og því gott að neyta trefjaríka fæðu til að fyrirbyggja hana.

Ef þú ert með vandamál sem tengjast þvagblöðrunni skaltu hafa samband við lækni eða hjúkrunarfræðing.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Mercy S. Washington, hjúkrunarfræðingur Ljósheimum HSU.