8.9 C
Selfoss

Orka náttúrunnar opnar nýja hleðslustöð á Geysi

Vinsælast

Það var sannarlega bjart yfir hópnum sem var mættur að Geysi í Haukadal þegar nýjasta hlaða Orku náttúrunnar var tekin í notkun í dag. Þetta er 50. hlaðan sem ON hefur reist og er þessi búin tveimur hraðhleðslutengjum auk Type 2 hleðslutengis.

„Það er skemmtilegt að enda árið á að opna fimmtugustu hlöðuna á einum fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Staðsetningin við Geysi hefur sterka tengingu við jarðhitann sem við hjá Orku náttúrunnar nýtum til að vinna rafmagn fyrir hin mikilvægu orkuskipti í samgöngum,“ segir Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri ON.

 

Orkuskipti í ferðaþjónustu eru mikilvæg

Fulltrúar sveitafélagsins og rekstraraðilar af svæðinu voru ánægðir með þessa auknu þjónustu við ferðafólk. „Hér er mikil umferð og nánast allir ferðamenn sem koma til landsins eiga leið hér um. Svo geta íbúar Bláskógarbyggðar nýtt sér þetta líka svo við erum bara glöð með að verið sé að þétta hleðslunetið og bæta þannig þjónustu við þá sem aka á rafbílum“, segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógarbyggðar.

 

Rafbílum fjölgar ört

Mikil aukning hefur verið í sölu rafbíla hér á landi. Drægni nýrra bílgerða vex ört. ON hefur einsett sér að vera í fararbroddi uppbyggingar innviða fyrir rafbíla og þjóna vel þeim ört stækkandi hópi sem rafbílaeigendur eru. Innviðir á ferðamannastöðum opna svo nýja möguleika fyrir ferðafólk. „Undanfarin fjögur ár hefur ON byggt upp hlöður á höfuðborgarsvæðinu og hringinn í kringum landið. ON er í forystu um uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti í samgöngum og því má segja að ON hafi opnað hringinn fyrir þá sem kjósa umhverfisvænsta kostinn sem í boði er,“ segir Berglind Rán Ólafdóttir, framkvæmdastjóri ON.

Nýjar fréttir