4.3 C
Selfoss

Jól og frostrósir

Vinsælast

Margir skreyta jólatrén sín með stjörnu í toppinn. Frostrósir á glugga hafa svipað form.

Vatn í tæru lofti er bara lofttegund með hátt rakastig, en þegar rakinn finnur sér fast efni eða brún til að festast við, þá safnast vatnssameindirnar þar saman og þéttast. Vatn getur haldist undir frostmarki í loftinu án þess að kristallast. Ískristallar myndast ekki fyrr en vatnið finnur sér örðu eða brún til að þéttast á. Minnsta orku þarf til að mynda sexstrendinga við kristöllunina. Það form á snjókornum og frostrósum á glugga, verður þá oftast ríkjandi. Eftir að fyrsti ískristallinn hefur myndast, getur rakinn í andrúmsloftinu eða á glugganum þéttst á einhverjum þeirra 6 horna sem hann hefur. Loft á milli glerja í tvöföldu gleri einangrar vel og því eru frostrósir á glugga fátíðari sjón í dag en áður var.

Fyrsta jólatréð sem ég man eftir var úr timbri. Það var skreytt með eini, sortulingi með rauðum berjum á og fleiru. Kúlum, stjörnum og músastigum var síðan bætt við. Kertin voru fest á með klemmum og tendruð með rafmagni.

Talað um „Lífsins tré“, „Ask Yggdrasils” og að á „Skilningstrénu” hafi hangið borðar og epli og að það hafi verið grænt.

Ef við notum lifandi grenitré sem jólatré, er hægt að seinka því að barrið falli af og minnka barrfallið með því að koma trénu fyrir í vatnsheldu íláti og viðhalda vatninu. Furutrjám er ekki eins gjarnt á að fella nálarnar, sem eru mun færri og stærri en á greni. Sumir smíða sér jólatré úr timbri. Þeir sem eiga garð, geta kíkt eftir því hvort toppur eða grein þurfi að víkja og nýtt það efni sem jólatré. Þá grein má saga af daginn sem skreyta á jólatréð.

Vaxtarlag margra trjáa endurspeglar lífið sjálft og greinar þess þá hin ýmsu fyrirbæri og tilfinningar mannlegrar tilvistar. Það má því vel nota óreglulega birkigrein sem jólatré. Sú grein hefur topp, margar greinar og miðjustofn, alveg eins og önnur tré.

Er það ekki líka svolítið jólalegt að vera frumlegur, útsjónarsamur og um leið nægjusamur? Ég gæti trúað að Jesú hefði líkað það!

Á birkigrein má festa jólastjörnuna á toppinn, jólaseríu á greinarnar, skreyta með ýmsu móti. Engin óþrif eru af birkigreinum.

Megi ykkur svo líða vel um jólin.

Nánari upplýsingar: Benni s. 892 7709 og benni@sjalfbaer.com

Nýjar fréttir