8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Stiklur úr starfsemi Skógasafns

Stiklur úr starfsemi Skógasafns

0
Stiklur úr starfsemi Skógasafns

Skógasafn er meðal elstu byggðasafna landsins og hefur tekið stakkaskiptum frá stofnun þess árið 1949. Safnið var ávallt í nánu samstarfi við Skógaskóla og því var úthlutað sýningarrými í skólanum þar til fyrsta safnhúsið var byggt á árunum 1954–1955. Safnið er í eigu héraðsnefnda Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga og skiptist í þrjár deildir, byggðasafn, húsasafn og samgöngusafn en allar heyra þær undir sömu stofnun.

Húsasafnið í Skógasafni

Erfitt er fyrir nútímafólk að ímynda sér hvernig hið daglega líf væri ef ennþá væri búið í húsakynnum reistum úr torfi og grjóti. Staðreyndin er engu að síður sú að þar til ekki svo löngu síðan var það raunin fyrir velflesta Íslendinga. Sem betur fer hefur þessi menningararfleifð varðveist, þó ekki á nema örfáum stöðum. Torfbæir einangruðu sérstaklega vel og hentuðu vel við íslenskar aðstæður þar sem lítið var af eldsmat til upphitunar. Torfbæir voru alls ekki viðhaldslaus húsnæði og eru ekki enn. Á Suðurlandi var hægt að reikna með meiri viðhaldsþörf vegna vætusamara veðurfars en í öðrum landshlutum. Sömu söguna er að segja um torfbæina sem prýða húsasafnið í Skógum en í sumar var farið í töluverðar endurbætur á þeim.

Í húsasafninu er lítið hlóðaeldhús frá Kvoslæk í Fljótshlíð. Frá því það var flutt á Skógasafn árið 1971 og endurhlaðið ári síðar hefur það staðið nánast óhreyft síðan. Þörfin fyrir viðhald var orðin umtalsverð og vegghleðslur þurfti að laga ásamt stöplum og langböndum í stafverki. Skera þurfti allt torf af þakinu og tína þakhellur af til þess að geta hafið endurbæturnar. Listilega vel tókst til og var afraksturinn til fyrirmyndar. Einnig voru gaflar endurhlaðnir í krossfjósi frá Húsum í Holtum og stafverk lagað í smiðjunni frá Skógum. Þorsteinn Jónsson og Sigurjón Eyjólfsson sáu um framkvæmdirnar af mikilli natni og alúð. Enn þarf að huga að torfbyggingum í húsasafni Skógasafns og stendur til að fara í enn frekari endurbætur á komandi ári.

Safna- og rannsóknarstarf á árinu

Unnið hefur verið að endurskipulagningu á grunnsýningu byggðasafnsins í kjölfar opnunar á nýju móttökuhúsi og framkvæmdum á elsta hluta safnhússins. Heilu safnheildirnar hafa verið teknar niður, veggir sparslaðir og málaðir og óæskilegum undirstöðuefnum skipt út. Munum hefur að því loknu verið komið fyrir á ný undir leiðsögn forvarða. Í ár var verkinu haldið áfram og munum komið fyrir á sýningu sem höfðu verið í geymslu á meðan á framkvæmdum stóð.

Á árinu var fengið millisafnalán frá Þjóðminjasafni Íslands að frumkvæði Þórðar Tómassonar, fyrrum safnstjóra Skógasafns. Munurinn er jarðfundin leðurflaska sem fannst við skurðgröft við Sólheimahjáleigu í Mýrdal og var komið til Skógasafns af ábúendum en Þórður Tómasson afhendir Þjóðminjasafninu gripinn í kjölfarið. Flaskan hefur verið saumuð saman og á jöðrunum eru göt með tvöföldum saum en bútarnir sem lokað hafa flöskunni hafa ekki varðveist. Í safnkosti Skógasafns er leðurbútur sem mögulega hefur verið notaður til að loka fyrir slíkt gat og hefur flöskunni og leðurbútnum verið stillt upp saman á sýningu. Um slíkar leðurflöskur er getið um í Íslendingasögum og ljóst er að gripurinn er ævaforn.

Skógasafn hefur styrkt fornleifarannsókn á Mýrdalssandi sem hófst sumarið 2017 undir stjórn Bjarna F. Einarssonar fornleifafræðings. Rannsóknin snýr að uppgreftri á bæjarstæðinu Arfabót í Álftaveri sem líklega hefur farið í eyði á fyrri hluta 15. aldar af völdum Kötlugosa. Helga Jónsdóttir, fornleifafræðingur og starfsmaður Skógasafns, hefur tekið þátt í uppgreftrinum en að honum hefur verið unnið yfir hásumartímann. Í ár var grafin upp skemma sem er jafnframt sú stærsta sem rannsökuð hefur verið á Íslandi fram að þessu en í fyrra var grafið upp fjós, sem var að auki hlaða, og heystæði. Á næsta ári stendur til að halda áfram og hefja uppgröft á næsta rými í bæjarstæðinu.

Safngjafir og heimasíða

Safnið hefur tekið við töluvert af munum á árinu, bæði til byggðasafnsins og samgöngusafnsins. Feðginin Hjálmar Axelsson og Ásdís Hjálmarsdóttir bifvélavirkjar gáfu Skógasafni tvo glæsilega bíla, annars vegar Willis Overland árgerð 1960 og hins vegar Wolseley 1500 árgerð 1963. Báðir bílarnir eru gangfærir og hefur verið haldið vel við. Charlotta, Snorri og Sæunn Ingabörn gáfu orgel-harmonium úr fórum langafa síns, sr. Magnúsar Bjarnasonar á Prestbakka á Síðu. Orgelið er frá byrjun 20. aldar og er vel með farið. Jóhannes Þórðarson arkitekt gaf muni frá ömmu sinni, Karolínu Þorvaldsdóttur, sem var dóttir Þorvaldar Bjarnasonar á Þorvaldseyri. Halasnælda, rokkur og ullarkambar var meðal þess sem Jóhannes gaf safninu ásamt stóru olíumálverki af Guðmundi Hlíðdal, póst- og símamálastjóra, málað af Karenu Agnete Þórarinsson. Ekki er mögulegt að telja upp allt sem barst safninu á árinu í þessum pistli en fyrir hönd Skógasafns vil ég þakka öllum þeim sem ánöfnuðu safninu þessar ágætu gjafir.

Heimasíða safnsins, skogasafn.is, hefur einnig verið í endurhönnun og býður nú upp á betra viðmót fyrir farsímanotendur. Á heimasíðunni er nú boðið upp á möguleika að kaupa aðgang á safnið sem hefur fallið í góðan farveg safngesta. Á komandi ári stendur til að bæta við efni á síðuna um valda gripi úr safnkosti Skógasafns.

Starfsemin á árinu hefur verið margþætt að venju og gestakoma hefur verið tíð. Ánægjulegt er að taka á móti gestum sem vilja fræðast um íslenska þjóðmenningu og kynnast íslensku hversdagslífi frá horfinni tíð. Mikil innri uppbygging hefur átt sér stað sem stendur til að halda áfram með á komandi árum. Að lokum vil ég óska Sunnlendingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs á aldarafmælisári íslenska fullveldisins.