Öflugt starf hjá Rauða krossinum í Árnessýslu

Mynd: Rauði Krossinn.
Mynd: Rauði Krossinn.

Senn líður að jólum og af því tilefni ágætt að fara yfir starf okkar hér í Rauða krossinum í Árnessýslu.

Á þessu ári hefur verið mikil aukning bæði sjálfboðaliða og skjólstæðinga hjá okkur og verkefnin hjá okkur vaxa og dafna.

Prjónahópurinn Síðasta umferðin er skipuð hressum konum á öllum aldri. Þær hittast einu sinni í viku á mánudögum og prjóna saman, síðan er afrakstur ársins seldur á basar sem haldinn er fyrsta vetrardag. Ágóði af þessum basar rennur allur til deilarinnar hér.

Föt sem framlag er hópur sem hittist á miðvikudögum og pakkar fatnaði sem sendur er til Hvíta Rússlands. Mikið er af fallegu handverki sem þær prjóna heima og sauma sem einnig fara í pakkana. Skjólstæðingar í Vinaminni hafa prjónað mikið af teppum fyrir okkur sem fara líka í pakkana. Það sem af er þessu ári er búið að senda 568 pakka.

Því miður hefur strákakaffið ekki farið af stað hjá okkur en leitað er eftir sjálfboðliða til að halda utan um þann hóp.

Stelpukaffið er á sínum stað og þar hittast öflugar hressar stelpur/konur frá 18 til 30 ára. Þær hittast á fimmtudögum. Skemmtilegur hópur sem hefur verið að gera ýmiskonar handverk og föndur, eins og núna fyrir jólin, jólakort og annarkonar föndur.

Nýtt verkefni fór af stað hjá okkur í haust og hlaut það nafnið Fögur fljóð en þar hittast konur 30+ í léttu spjalli og prjóna. Er þessi hittingur á þriðjudögum.

Neyðarvarnir er stór partur af okkar verkefnum og höfum við þurft að sinna þó nokkrum verkefnum vegna ófærðar síðastliðinn vetur. Á næsta ári verður farið af stað með sérstakan viðbragðshóp í sálrænum stuðningi og það verða sérþjálfaðir aðilar sem koma til með að sinna því verkefni.

Heimsóknarvinir er ört vaxandi verkefni hjá okkur. Erum við bæði með heimsóknir í heimahús og á vistheimili, einnig erum við með heimsóknarhunda sem kíkja í heimsókn til einstaklinga. Þá erum við einnig með símavini.

Einhverfukaffi, fyrir fullorðna einstaklinga sem greindir eru með einhverfu, hefur verið hjá okkur í haust og verið vel sótt.

Þá hafa sjálfboðliðar tekið þátt í aðlögun flóttamanna sem komu á síðasta ári.

Nú fyrir jólin er starfræktur sjóður, Sjóðurinn góði, til aðstoðar þá sem hafa lítið á milli handanna. Er hann samstarfsverkefni félagasamtaka og kirkjunnar.

Einnig erum við með fatagáma við Byko á Selfossi og á gámasvæði rétt utan við Selfoss einnig eru staðsettir faragámar í uppsveitum Árnessýslu.

Þá vill stjórn og starfsmaður senda öllum þeim góðu sjálboðaliðum sem hjá okkur starfa fyrir frábært samstarf árinu án ykkar væri starfið ekki svona öflugt. Að lokum sendum við styrktaraðilum, samstarfsaðilum, sjálfboðliðum og fjölskyldum þeirra okkar bestu óskir um gleðileg jól og gæfuríks komandi árs.

Gleðilega jólahátíð

Erla Guðlaug Sigurjónsdóttir, deildastjóri Rauða krossins í Árnessýslu.