0.6 C
Selfoss
Home Fréttir Á Washington-eyju

Á Washington-eyju

0
Á Washington-eyju
Mynd: Lýður Pálsson.

Byggðasafn Árnesinga minnist Vesturheimsferða í húsakynnum sínum með sérstakri sýningu. Upphaf Vesturheimsferða frá Íslandi má rekja til Hússins á Eyrarbakka en danskur verslunarþjónn William Wickmann fór frá Eyrarbakka um 1865 vestur um haf og skrifaði svo gamla vinnuveitandanum sínum Guðmundi Thorgrímsen verslunarstjóra bréf þar sem hann lýsti dásemdum þess að flytja til Vesturheims. Fór það svo að tveir hópar fóru frá Eyrarbakka árin 1870 og 1872 sem settust að á Washingtoneyju á Michican-vatni í Wisconsin-fylki og voru það fyrstu skipulögðu ferðir frá Íslandi vestur um haf. Frá síðustu aldamótum hefur safnið verið í margvíslegum tengslum við afkomendur Vesturfaranna frá Eyrarbakka. Þrír þeirra gáfu fé til uppbyggingar Eggjaskúrsins árið 2004 og árið 2015 fengum við góða heimsókn frá eynni sem mér þótti rétt að endurgjalda. Í því skyni var skipulögð ferð og lítill þéttur hópur fór. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast Washington-eyju og skapa tengsl auk þess að kynnast safnastarfi í Chicago.

Þessi góða ferð til Ameríku var farin í júní, mín fyrsta ferð og vonandi ekki sú síðasta vestur um haf. Flogið var til Chicago þar sem hjónin Almar Grímsson og Anna Björk Guðbjörnsdóttir tóku á móti mér. Þau voru ferðafélagar mínir fyrstu fjóra dagana á Washington-eyju og Almar sá um allan undirbúning. Þeim hjónum skulu hér færðar kærar þakkir.

Nokkurra tíma ferð er frá Chicago að skipalæginu Northport Pier og var áð á leiðinni. Í Northport Pier fórum við um borð í ferjuna Arni J. Richter sem flutti okkur til Washington eyjar. Þar tóku á móti okkur feðgarnir Hoyt Purinton og faðir hans Richard Purinton. Þeir feðgar reka ferjufyrirtæki sem sér um siglingar milli lands og eyjar. Mér var útvegaður bíll sem ég hafði til umráða á eynni og við fórum til heimilis Richards. Við heilsuðum upp á Mary Jo konu hans sem fædd var Richter, dóttir Árna J. Richter sem var barnabarn Árna Gudmundsen sem fór frá Eyrarbakka 1872.

Síðan kom ég mér fyrir í herbergi á Sunset Resort hóteli á eynni. Á hótelinu hitti ég Steve Reiss skjalavörð og hótelsstjóra. Þá var boðað til ferðar á bátnum Moby Dick, undir stjórn Richards Purintons. Með í för voru Ásgrímur Jónasson rafverkfræðingur, Jónas Yngvi sonur hans sem býr í Brautarholti á Skeiðum og sonur hans Ásgrímur Örn Jónasson, einnig þau Amy Gíslason og maður hennar Craig. Farið var um söguslóðir og m.a. skoðaðar leifar frá veldi Jóns Gíslasonar kaupmanns og siglt að ferjunni Eyrarbakki. Jón Gíslason var foringi þeirra fjögurra Eyrbekkinga sem námu eyna árið 1870.

Á fyrsta kvöldi okkar á Washington-eyju var haldin samkoma í Lútersku kirkjunni til heiðurs okkur íslensku gestunum og fluttum við ávörp. Þar hitti ég Jennie Ronning sem studdi Byggðasafn Árnesinga til uppbyggingar Eggjaskúrsins árið 2004 og einnig hitti ég Christine Andersen dóttur Hannesar Andersen heitins sem einnig studdi okkur og hvatti í þessu verkefni. Þær báðar eru afkomendur Eyrbekkinga sem fóru vestur um haf árin 1870 og 1872. Um 100 manns voru á samkomunni. Margir vildu spjalla við safnstjórann frá Eyrarbakka.

Á samkomunni voru auk okkar íslensku gestanna systkinin Amy Welt Gislason og Gary Gislason en þau búa í um dagleið frá eyjunni. Jón Gislason var langafi þeirra. Með þeim í för voru Craig eiginmaður Amy og Jane eiginkona Gary og tvíburadætur þeirra Anna og Aurie. Langafi Almars, sr. Ísleifur Gíslason var bróðir Jóns Gíslasonar sem var prestur að Arnarbæli í Ölfusi. Þau Amy og Gary eru því fjórmenningar við Almar.

Daginn eftir fórum við á Kletteyju, eða Rock Island. Árið 1911 keypti vel efnaður Vestur-Íslendingur, Hjörtur Þórðarson raffræðingur í Chicago, stóran hluta eyjunnar. Hann kom upp miklum mannvirkjum og nýtti til sumardvalar. Kona hans var frá Eyrarbakka. Merkasta húsið sem Hjörtur byggði var bátahúsið svokallaða sem er reisuleg bygging með bátalægi fyrir fjóra báta en yfir því er stór salur þar sem Hjörtur varðveitti bókasafn sitt. Í salnum var að finna húsgögn Hjartar sem Halldór Einarsson frá Brandshúsum í Flóa skar snilldarlega út. Richard sem skrifað hefur bók um Hjört og Klettey benti mér sérstaklega á snotran myndaramma með útskurði Halldórs, allskonar tákn í hornum og hliðum rammans sem mætti túlka sem lífshlaup Hjartar Þórðarsonar. Bátahúsið og Kletteyin öll hafði mikil áhrif á mig og það var reglulega gaman að koma auga á útskornu húsgögnin sem Halldór Einarsson skar út fyrir Hjört. Og Hjörtur hefur verið engum líkur.

Þriðja daginn var ýmislegt skoðað á Washington-eyju, farið á skjalasafnið, í kirkjugarðinn, í Jacobsens-safnið og sjóminjasafnið. Einnig á slóðir Jóns Gíslasonar kaupmanns. Skoðuð var norsk stafkirkja. Um kvöldið var kvöldverður hjá Mary Jo og Richard Purinton og voru mættir þar nokkrir afkomendur Árna Gudmundsen sem kom til eyjarinnar með hópnum frá Eyrarbakka 1872. Hann var langafi Mary Jo Purinton.

Þarna var einnig Jennie Ronning og við fórum að bera saman bækur okkar. Við gátum rakið okkur saman, erum bæði komin út af Eyjólfi sterka Símonarsyni sem bjó á Litla-Hrauni á 18. öld – þann sem rétti einsamall við Gráhellu, skammt norðvestur af Litla-Hraunsstekk, og sigraði í glímu við heljarins stóran blámann sem var á kaupskipi. Urðum við að sjálfsögðu afar sæl með þessa skyldleikauppgötvun.

Fjórða daginn var eyjan kvödd og við þremenningarnir ókum til Chicago. Þar kvaddi ég Almar og Önnu og ég nýtti næstu daga til að kynna mér söfn í stórborginni og stórborgarlífið.

Á heimleiðinni til Íslands varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að vera boðið í flugstjórnarklefann en svo vildi skemmtilega til að flugstjórinn Brynjar Sigurðsson á ættingja á Washington-eyju. Brynjar er ættaður frá Litlu-Háeyri á Eyrarbakka.

Ferðina fór ég á vegum Byggðasafns Árnesinga sem fékk styrk frá símenntunarsjóði Safnaráðs til fararinnar.

Árið 2020 verða 150 ár liðin síðan fjórmenningarnir fóru frá Eyrarbakka og enduðu á Washington-eyju. Hugmyndir eru uppi um gagnkvæmar heimsóknir milli Íslands og Washington-eyjar það sumar og verður fljótlega farið að skipuleggja þá ferð. Áhugasamir hafi samband við undirritaðan eða Almar Grímsson.

Lesendum Dagskrárinnar óska ég gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.

Lýður Pálsson, safnstjóri Byggðasafns Árnesinga.