8.9 C
Selfoss

Jólahugvekja

Vinsælast

Frásögn jólaguðspjallsins endurómar gleðina, friðinn og óttaleysið sem engillinn boðaði hirðunum forðum: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“

Hirðarnir voru þeir fyrstu sem fengu að heyra hvað hafði gerst, að sjálfur Guð hefði komið inn í þennan heim sem lítið barn.

Og bráðum fáum við að heyra hið sama og halda jól í friði og ró.

Eða hvað?

Boðskapur jólanna, jólaguðspjallið, er alltaf jafn áhrifaríkt og dásamlegt. Að sitja á kirkjubekk eða heima í stofu klukkan sex á aðfangadag og hlusta þegar jólaguðspjallið er lesið er alveg sérstök upplifun – og fyrr koma jólin ekki að margra mati.

En á bak við guðspjallið er engin sérstök glansmynd þegar nánar er að gáð. Við gleymum því oft.

Við sjáum Jósef, Maríu og Jesúbarnið fyrir okkur umvafin dýrum á kyrrlátu kvöldi. Myndin er friðsæl og fögur, rétt eins og á jólakortinu. Við sjáum fyrir okkur engla, hirða og vitringa og ljósið frá stjörnubjörtum himni.

En þannig eru jólin ekki alltaf og alltof sjaldan hjá alltof mörgum.

Á bak við glansmyndina er að finna annan veruleika, ekki jafn kyrrlátan eða fagran – og hann fór ekki framhjá þeim sem fyrst heyrðu frásögn jólaguðspjallsins.

Hvers vegna ferðuðust Jósef og María frá Nasaret til Betlehem? Hvers vegna lögðu þau sig í slíka hættu rétt áður en María átti að eiga barnið?

Ekki vegna þess að þau vildu það!

Nei, það var valdið og peningarnir sem stjórnuðu því rétt eins og svo mörgu öðru í heiminum. Keisarinn þurfti að vita hversu mörgum gjaldendum hann gat gengið að og krafið um skatt. María og Jósef voru ekki til sem annað en innfærsla í skatttalinu! Peningar sem biðu þess að verða innheimtir.

Það var ástæðan fyrir því að unga parið ferðaðist út í hættulega óvissuna, vegna aðstæðna sem þau höfðu ekkert með að gera og höfðu ekkert um að segja. Þess vegna fengu þau ekki húsaskjól og urðu að sætta sig við aðstæður sem engum var bjóðandi – og ekkert tilvonandi foreldri óskar sér.

Er þetta kunnuleg mynd?

Stundum passa jólin ekki inn í glansmyndina sem alltof oft er dregin er upp, ekki síst í fjölmiðlum og af verslunareigendum og öðrum hagsmunaaðilum.

Fyrir nokkrum árum var ég með aðventuskemmtun í kirkjunni. Ég spurði börnin: „Hvar eru jólin“? Lítil stúlka, um það bil 5 ára, rétti upp höndina skælbrosandi og það stóð ekki á svari. „Nú í IKEA auðvitað“. Já, að sjálfsögðu. Er það ekki gott svar, og rökrétt. Við erum minnt á það strax í lok september hvar við eigum að versla og hvað við þurfum að kaupa til að tryggja okkur góð jól.

Ég sagði stúlkunni að við gætum keypt margt fallegt í IKEA fyrir jólin, en benti á hjartað á henni og mér til að útskýra hvar jólin raunverulega væru. „Nú“, sagði hún þá hissa og bætti við: „Ég verð að segja mömmu það.“

Jólin í Betlehem voru ekki nein IKEA-jól.

En samt koma jólin!

Óháð því hvernig stendur á hjá okkur sem samfélagi, fjölskyldu og einstaklingum. Jafnvel þótt áhyggjur og ótti, sorg og missir einkenni jólaundirbúninginn. Samt koma jólin með alla sína helgi.

Fyrstu jólin voru ekki hvít jól í fallegri kirkju eða skreyttri stofu. Þau voru vafalaust myrk og köld.

En samt kemur Guð og gerir þennan heim að jötu sinni. Þennan brotna og ófullkomna heim með öllu þessu brotna og ófullkomna fólki. Samt kemur hann og vill finna þig og mig. Og hann kemur færandi hendi með friðinn sinn og kærleikann sinn sem er hvergi er til sölu í búðarhillum nútímans.

Keisarinn Ágústínus var tignaður sem friðarhöfðingi og frelsari á sínum tíma. Hann var ekki fyrsti einræðisherra veraldarinnar og ekki sá síðasti. En hann er söguleg áminning um það vald sem stjórnar á kostnað annarra og þann auð sem þrífst á neyð venjulegs fólks.

Á yfirborðinu lítur Ágústínus út fyrir að hafa stjórn á öllu. Hann sendir út boð og fólk gerir það sem hann segir. Þegar horft er á stóra samhengið líta María og Jósef út fyrir að skipta litlu sem engu máli. Þau eru bara tvö af svo ótalmörgu fólki sem eru á ferðinni um þennan hættulega heim í leit að samastað, skjóli og öryggi.

Og á það ekki við um okkur öll hvar sem við erum niðurkomin? Erum við ekki öll í leit að því sama þegar allt kemur til alls? Þráum við ekki öll innihaldsríkt, gott, gefandi og hamingjuríkt líf sem byggt er á öryggi, réttlæti og friði?!

En þrátt fyrir það virðist svo langt í að heimsbyggðin nái því takmarki. Það lítur svo órauhæft út.

En þá minnir jólaguðspjallið okkur á að það er annað afl í þessum heimi en peningar og völd. Það minnir okkur á að í hinu smáa og óséða, varnarlausa og týnda, býr máttur sem ekkert fær staðist.

Á bak við þá atburði sem guðspjallið greinir frá er veruleiki stærri en allt annað, máttugri en öll mannanna völd og auðævi samanlögð, veruleiki sem vegur og metur lífið á annan mælikvarða en þann sem oftast er notaður af mönnum.

Það er Guð, skapari himins og jarðar, uppspretta lífsins sjálfs og ljós þess. Það er veruleikinn sem er á bak við frásögn guðspjallsins og allt bendir til, og hann býður upp á annað líf og annan heim. Og hann mun hafa síðasta orðið, þótt svo margt bendi til annars.

Jólaguðspjallið flytur okkur áleitinn boðskap.

Og í heimi sem er uppfullur af ófriði, ókyrrð og ótta hefur sá boðskapur aldrei verið jafn mikilvægur en nú. Sjaldan hefur verið meiri þörf á að minna heimsbyggðina á hvar hin sönnu gæði lífsins liggja.

Og í þeirri frásögn sem jólin flytja er þau að finna í jötu.

Ég þarf oft að minna mig á að jólin gera ekki miklar kröfur þegar allt kemur til alls, bara á mótækilegt hjarta og opinn hug.

Og öll höfum við hjarta sem rúmar Guð, ef við viljum taka á móti honum. Og það er ástæðan fyrir því að hann er kominn, til þess að finna þig og mig. Vegna þess að líf okkar og heimsins alls skiptir hann máli.

Það er boðskapur jólanna, jólaboðskapur guðspjallsins: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“

Sr. Gunnar Jóhannesson.

Guð gefi þér friðsæl og gleðileg jól.

Sr. Gunnar Jóhannesson, Hveragerði

Nýjar fréttir