2.7 C
Selfoss

Forvarnir um hátíðirnar

Vinsælast

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa nokkur verkefni tengd forvörnum verið í gangi í Sveitarfélaginu Árborg. Hæst stendur þó áherslur á fræðslu um vímuefni í efstu bekkjum grunnskóla. Eftir vel heppnaða foreldrasýningu á kvikmyndinni „Lof mér að falla“ í Bíóhúsinu og svo málþing á Hótel Selfossi í framhaldinu var ákveðið að fara með vímuefnafræðslu í fjóra efstu bekki í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Haldinn var undirbúningsfundur þar sem fulltrúar grunnskóla, lögreglu og barnaverndar var boðið til skrafs og ráðagerða með forvarnarfulltrúa. Niðurstaðan var sú að fá Magnús Stefánsson með okkur í lið og bjóða upp á fræðslu annars vegar í 7. og 8. bekk og hinsvegar í 9. og 10. bekk þar sem hann, fulltrúi lögreglu og fulltrúi barnaverndar kæmu saman með erindi inn í fyrrgreinda árganga. Þannig myndu nemendurnir fá markvissa fræðslu um fíkni- og vímuefni ásamt því að hitta fulltrúa barnaverndar og lögreglu sem eru þeir fagaðilar sem standa þessum málaflokki næst í okkar nærsamfélagi. Í framhaldi af þessu verkefni vill forvarnarfulltrúi og forvarnarteymi sveitarfélagsins minna á að ein sterkasta forvörn sem finnst er uppbyggileg samvera foreldra með börnum sínum. Nú er jólahátíðin að ganga í garð þar sem ösin getur verið mikil og mikið að gera í amstri dagsins hjá fullorðnum. Hjá ungu fólki getur hið andstæða átt sér stað. Rannsóknir hafa sýnt að í skólafríum aukast líkur á því að ungmenni leiðist útí óreglu þegar dagleg „rútína“ dettur út. Mælt er með því að fjölskyldur eyði jólahátíðinni saman á uppbyggilegan og skemmtilegan hátt þar sem börn, unglingar og foreldrar njóta sín öll.

Gleðilega hátið, Gunnar E. Sigurbjörnsson, tómstunda- og forvarnarfulltrúi Árborgar.

 

Nýjar fréttir