7.8 C
Selfoss
Home Fastir liðir Ætla að verða rithöfundur þegar ég fer á eftirlaun

Ætla að verða rithöfundur þegar ég fer á eftirlaun

0
Ætla að verða rithöfundur þegar ég fer á eftirlaun
Baldur Garðarsson.

Baldur Garðarsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er Akureyringur, fæddur á Oddeyri haustið 1950. Flutti suður á barnsaldri og gekk í Flúðaskóla (gamla skólann) og fór síðan á heimavist á Hlíðardalsskóla í Ölfusi, þaðan í ML og síðan til Reykjavíkur í háskólnám í líffræði. Vann við ýms störf meðal annars á hænsnabúi, við beitartilraunir og landvörslu en hefur verið raungreinakennari frá 1973 með hléum til 1988 og aftur frá 1996, lengst af við Menntaskólann að Laugarvatni. Baldur lærði einng að mæla flúor í grasi og hefur starfað við þá iðju meðfram kennslu þegar eldfjöll gjósa.

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Ég er að lesa nýútkomna bók eftir Karl Jeppesen sem nefnist Fornar hafnir. Hafði nýlokið við bók um eyðibýli á Suðurlandi og langaði að lesa meira um söguarf okkar. Báðar þessar bækur eru ríkulega myndskreyttar og fróðlegar. Svo skemmtilega vill til að Karl er gamall nemandi minn frá því ég kenndi í fyrsta skipti við Kennaraskólann árið 1973–1974 en hann er samt nokkru eldri en ég. Svo er ég að svipast um eftir nýrri bók sem heitir Lífsspeki kúa eftir Rosamund Yong.

Hvers konar bækur höfða til þín?
Ég er grúskari. Það eru alls konar fræðibækur og upplýsingarit en síður skáldsögur. Alls ekki glæpasögur. Ég er hins vegar frekar afkastalítill lestrarhestur, smásögur henta mér vel eða ljóð, ég sofna gjarnan út frá lengri sögum. Þá reyni ég að lesa sem mest af því sem kemur út um listir og sveitamennsku, auk bóka um alls konar sérkennlegt fólk. Á óskalista fyrir jólin er bók um íslenska förumenn og svo bókin um Krist. Þá eru bækur eftir Bjarna Harðarson alltaf áhugaverðar.

Varstu alinn upp við bóklestur?
Ég varð snemma læs og las allt sem hönd á festi en man ekki að mikið hafi verið lesið fyrir mig. Það voru ýmsar barnabækur á heimilinu og svo fékk ég gjarnan unglingabækur í jólagjöf, Bob Moran og bækur Ármanns Kr. Einarssonar. Þetta var á þeim tíma sem unglingabækur skiptust í strákabækur og stelpnabækur. Ég uppgötvaði löngu síðar að það var nokkra speki að finna í sumum þessara bóka eins og í Bonanza bókunum og mér finnst að Kúrekinn og ljónið sé tiltölulega merkileg dæmisaga um vináttu manns og dýrs.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?
Ég er afkastalítill lestrarhestur en fundvís á lausa tíma til lestrar. Ég get verið hraðlæs og hef margoft skotist inn í bókaverslanir og hreinlega lesið sýniseintök nýrra bóka á hálftíma. Ef ég tek mér ljóðabók í hönd þá hraðles ég hana og staldra við góð ljóð. Það er algengt að eitt ljóð standi upp úr. Þarna hef ég fundið ýmsa gimsteina í sorpinu. Svo verð ég að geta þess að ég les alltaf tvö viku- eða mánaðarrit sem eru Andrés Önd og Bændablaðið. Hóf áskrift að Andrési þegar börnin voru ung, Georg gírlausi er í uppáhaldi. Bændablaðið les ég hins vegar vegna þess að það er vandað blað og alltaf fullt af alls konar fræðigreinum.

Áttu þér uppáhaldshöfund?
Fyrsta tel ég Gerði Kristnýju en hún er snillingur og síbreytileg. Ég reyndi að tileinka mér Símon Dalaskáld en hann var svo langorður að ég gafst upp eftir fjórar rímur. Þá vil ég nefna Jón Trausta og í fyrra uppgötvaði ég höfund sem hét Guðný Jónsdóttir frá Galtafelli (1878-1975) og skrifaði í anda Hamsun með keim af Guðrúnu frá Lundi þar sem viðfangsefnið er daglegt amstur og vonbrigði. Skáldsaga hennar Brynhildur er áhugaverð sem ég hygg að fáir þekki. Guðný var systir Einars myndhöggvara. Hvers vegna þessir höfundar koma upp í hugann er spurning. Býst við að þeir hafi einhvern X faktor sem aðrir hafa ekki.

Hefur bók rænt þig svefni?
Já tvisvar. Þegar ég las bókina Síðustu ár sálarinnar eftir Ársæl Má Arnarson prófessor í sálfræði gat ég ekki sofið eftir hroðalegar lýsingar á tilraunum 18. aldar manna til að rannsaka sálina. Bókin er fróðleg og ágætt fræðirit en ekki við hæfi barna. Þá ber þess að geta að eftir að ég las bók Guðlaugs Guðmundssonar um örlög Reynistaðabræðra dreymdi mig þá bræður tvisvar og það svo skýrt að ég vaknaði í bæði skiptin. Ræddi ég alllengi við þá í þessum draumum og ítrekuðu þeir að sögulokin í bókinni væru röng. Engan hef ég enn hitt sem telur þessa drauma merkilega utan einn dýralækni. Leikur mér forvitni á að vita hvort fleiri en ég hafa orðið fyrir sambærilegri reynslu og bið þá að hafa samband við mig.

Hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?
Svo vel vill til að ég ætla einmitt að verða rithöfundur þegar ég fer á eftirlaun. Ég fékk áhuga á því fyrir 15 árum að skrifa bæði leikrit og smásögur. Þetta eru ýmiskonar verk sem flest fjalla um einstæðinga eða fólk sem lendir í skrítnum aðstæðum eða dregst inn í atburðarás sem ekki samræmast góðum venjum ef svo má að orði komast. Tvö þessara verka eru samvinnuverkefni með öðrum. Það verður nóg að gera hjá mér í ellinni.